Deildakeppnin hefst í dag

Deildakeppni BSÍ, Íslandsmót liða í badminton, hefst í TBR húsunum í kvöld kl. 19.00. Í kvöld verður keppt í B-deildinni en keppni í A-deild og meistaradeild hefst á morgun laugardag. Smellið hér til að skoða leiki dagsins í dag.

Alls eru 24 lið skráð í Deildakeppnina 2008 en 19 lið voru með í fyrra. Vegna fjölgunar liða þarf að spila sextán fleiri leiki heldur en í síðustu keppni.

Fyrirkomulagið í meistaradeildinni er þannig að fimm lið keppa í riðli, allir við alla. Sigurliðið er Íslandsmeistari og keppir fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni félagsliða.

Í A-deildinni eru skráð til keppni átta lið sem dregin hafa verið í tvo fjögurra liða riðla. Efstu tvö liðin í hvorum riðli fara svo í úrslitariðil sem keppir um 1.-4.sætið í A-deildinni. Neðstu tvö liðin í hvorum riðli leika í úrslitariðli um 5.-8.sætið. Fyrirkomulagið í úrslitariðlunum í A-deildinni er þannig að þau lið sem áður hafa mæst í keppninni mætast ekki aftur heldur taka úrslitin frá því deginum áður með sér í riðilinn.

Alls eru 11 lið skráð til keppni í B-deildinni. Þeim hefur verið skipt í þrjá riðla, einn þriggja liða og tvo fjögurra liða. Efsta liðið í hverjum riðli keppir í úrslitariðli um 1.-3.sætið í B-deildinni. Þau lið sem verða númer 2 í sínum riðlum leika um 4.-6.sætið og þau sem verða númer 3 um 7.-9.sætið. Liðin sem lenda í fjórða sæti leika úrslitaleik um 10.sætið.

Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar um Deildakeppni BSÍ.

Skrifað 1. febrúar, 2008
ALS