Gengi íslenska hópsins í Lettlandi

Stærstur hluti Afrekshóps Badmintonsambandsins tók þátt í Alþjóðlega lettneska mótinu nú um helgina. Mótið hófst á fimmtudaginn og því lauk í dag, sunnudag.

Daníel Jóhannesson komst lengst íslensku keppendanna í einliðaleik karla en þeir kepptu allir í forkeppni einliðaleiks. Hann vann Kaspar Kapp frá Lettlandi og Artem Tkachuk frá Úkraínu. Hann datt svo út á móti Pablo Sanmarin frá Spáni og komst ekki inn í aðalkeppnina. Davíð Bjarni Björnsson vann Tobias Krömke frá Noregi en datt út þegar hann tapaði í annarri umferð fyrir Tobias Kuenzi frá Sviss. Eiður Ísak vann einnig fyrsta leik sinn gegn Samy Corvee frá Frakklandi og tapaði svo fyrir Blai Ramirez frá Spáni.

Sigríður Árnadóttir tapaði í fyrsta leik fyrir Juliette Moinard frá Frakklandi í forkeppni einliðaleiks kvenna. Margrét Jóhannsdóttir varð að gefa alla leiki sína í mótinu vegna veikinda.

Eiður Ísak og Daníel léku tvíliðaleik i forkeppninni gegn Sturla Flaten Jorgensen og Carl Christian Mork frá Noregi og unnu þá í tveimur lotum. Þeir töpuðu síðan fyrir Mateusz Biernacki og Przemyslaw Szydlowski frá Póllandi og luku þar með keppni í greininni.

Í aðalkeppni tvenndarleiks sátu Kristófer Darri Finnsson og Sigríður hjá í fyrstu umferð. Daníel og Rakel Jóhannesdóttir, systir hans, unnu í fyrstu umferð Aleksander Jablonski og Wiktoria Adamek frá Póllandi. Í annarri umferð mættust þessi íslensku pör og leikur þeirra endaði með sigri Daníels og Rakelar eftir oddalotu. Daníel og Rakel lutu svo í lægra haldi fyrir pari frá Rússlandi, Dmitrii Riabov og Maria Shegurova.

Smellið hér til að sjá úrslit á Alþjóðlega lettneska mótinu.

Hópurinn fer til Danmerkur ásamt Tinnu Helgadóttur landsliðsþjálfara þar sem þau fara á æfingar áður en þau halda áfram til Litháen og taka þátt í Alþjóðlega litháenska mótinu sem hefst á fimmtudaginn. Sara Högnadóttir fer með á það mót. Smellið hér til að sjá niðurröðun á Alþjóðlega litháenska mótinu.

Skrifað 5. júní, 2016
mg