Ársþing BSÍ er að baki

Ársþing Badmintonsambands Íslands fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær. Þetta 48. þing fór í alla staði vel fram og var því stýrt vel og örugglega af þingforsetanum Herði Þorsteinssyni. Fulltrúar frá sjö héraðssamböndum og Íþróttabandalögum sóttu þingið.

 

Ársþing BSÍ 2016


Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir, Valgeir Magnússon og Þórhallur Einisson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa en Guðrún Björk Gunnarsdóttir, Helgi Jóhannesson og Vignir Sigurðsson sitja áfram í stjórn stað auk Kristjáns Daníelssonar formanns. Nýir í stjórn eru Birgitta Rán Ásgeirsdóttir, Hrund Guðmundsdóttir og Ívar Oddsson sem öll voru kosin til tveggja ára.

 

Stjórn Badmintonsambands Íslands 2016-2018 skipa því eftirfarandi einstaklingar: Kristján Daníelsson, formaður, Birgitta Rán Ásgeirsdóttir, Guðrún Björk Gunnarsdóttir, Helgi Jóhannesson, Hrund Guðmundsdóttir, Ívar Oddsson og Vignir Sigurðsson.

Ársþing BSÍ 2016

Birgir Þór Birgisson framkvæmdastjóri Dominos veitti verðlaun stigahæstu leikmönnum í Dominosdeildinni í Meistaraflokki á tímabilinu 2014-2015 og 2015-2016. Verðlaunin hlutu fyrir tímabilið 2014-2015: Í einliðaleik kvenna Sara Högnadóttir TBR, í einliðaleik karla Atli Jóhannesson TBR, í tvíliðaleik kvenna Sara Högnadóttir TBR og Rakel Jóhannesdóttir TBR, í tvíliðaleik karla Atli Jóhannesson TBR og Daníel Thomsen TBR og í tvenndarleik Snjólaug Jóhannsdóttir og Daníel Thomsen. Verðlaunin hlutu fyrir tímabilið 2015-2016: Í einliðaleik kvenna Margrét Jóhannsdóttir TBR, í einliðaleik karla Kári Gunnarsson TBR, í tvíliðaleik kvenna Snjólaug Jóhannsdóttir TBR og Rakel Jóhannesdóttir TBR, í tvíliðaleik karla Atli Jóhannesson TBR og Davíð Bjarni Björnsson TBR og í tvenndarleik Margrét Jóhannsdóttir og Daníel Thomsen.

Tekin voru fyrir málefni sem lágu fyrir þinginu. Lagabreytingartillögur voru samþykktar en ný lög Badmintonsambandsins verða sett á heimasíðu sambandsins þegar þau hafa verið blessuð af ÍSÍ.

Afreksstefna fyrir árin 2016 - 2024 var tekin fyrir á þingi og samþykkt. Stefnuna má nálgast með því að smella hér.

Badmintonsamband Íslands þakkar fulltrúum allra aðildarfélaga, þjálfurum, dómurum, keppendum og öllum iðkendum íþróttarinnar öllum fyrir samstarfið í vetur.

Skrifað 9. maí, 2016
mg