Drífa og Rakel Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna

Drífa Harðardóttir ÍA og Rakel Jóhannesdóttir TBR mættu Margréti Jóhannsdóttur og Söru Högnadóttur TBR í úrslitum tvíliðaleiks kvenna. Drífa býr í Dannmörku og spilar þar með Taastrup Elite í þriðju deild. Drífa varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í fyrra með Tinnu Helgadóttur og með Söru Jónsdóttur árið 2004. Rakel varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Elínu Þóru Elíasdóttur árið 2013.

Drífa og Rakel leiddu alla fyrstu lotuna og unnu hana 21-11. Ungu stúlkurnar Margrét og Sara leiddu aðra lotuna og voru yfir 11-6. Drífa og Rakel náðu að vinna upp forskot Margrét og Söru og jöfnuðu 19-19. En Margrét og Sara náðu að lokum að vinna lotuna sem endaði 21-19 fyrir þeim. Í þriðju lotunni voru Drífa og Rakel yfir allan tímann, voru yfir 11-5 og unnu 21-16.

Með því vann Drífa sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í tvíliðaleik og Rakel sinn annan.

Skrifað 10. apríl, 2016
mg