═ran nŠsti vi­komusta­ur R÷gnu

Það verður ansi stór hluti landa í heiminum sem badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir hefur heimsótt þegar Ólympíutímabilinu lýkur 1.maí næstkomandi. Til að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikum í badminton þurfa leikmenn að berjast um sæti á heimslistanum með því að taka þátt í badmintonmótum um víða veröld. Það getur enginn verið með í þeirri baráttu nema taka þátt í amk. 12 alþjóðlegum mótum á ári og að sjálfsögðu þarf að ganga vel líka.

Næsti viðkomustaður Rögnu í baráttunni við að komast á Ólympíuleikana er borgin Tehran í Íran en þar fer Iran Fajr 2008 badmintonmótið fram 2.-5.febrúar næstkomandi. Ragna hefur aldrei áður verið á þessum slóðum í heiminum. Mótið, Iran Fajr, er mjög sérstakt að því leiti að keppni karla og kvenna er skipt algerlega í tvennt þ.e. karlarnir og konurnar keppa ekki á sama stað. Þar sem konurnar keppa má engin karlmaður koma inn og eru því allir dómarar og starfsmenn konur.

Þessi skipting keppninnar eftir kynjum þýðir auðvitað að þjálfari Rögnu, Jónas Huang, getur ekki farið með henni til Íran. Ragna var hinsvegar svo heppin að fá með sér í þetta ævintýri Laufeyju Sigurðardóttur sem er þjálfari og formaður hjá Badmintonfélagi Akranes. Laufey er íþróttakona af guðs náð eins og Ragna en hún var lengi afrekskona í knattspyrnu spilaði 18 A landsleiki og var í atvinnumennsku í Þýskalandi. Þá hefur hún einnig spilað fimm unglingalandsleiki fyrir Íslands hönd í badminton.

Það er að ýmsu að hyggja áður en haldið er af stað til lands eins og Írans. Í fyrsta lagi þurftu þær Ragna og Laufey að fá vegabréfsáritun til að komast inní landið. Hana var ekki hægt að fá nema senda vegabréfin þeirra til sendiráðsins í Noregi. Einnig var þeim ráðlagt að útvega sér viðeigandi fatnað þ.e. slæður o.fl. fyrir ferðina sem tryggir að ekki sjáist í bert hold fyrir ofan hné fyrir utan andlitið.

Ragna hefur hitt stúlkur frá Íran á nokkrum mótum undanfarin ár. Sumar þeirra spila full klæddar og með slæður en aðrar ekki. Það ku fara eftir ákvörðun feðra þeirra hvort þær spila í hefðbundnum badmintonfötum eða ekki.  

Niðurröðun mótsins hefur enn ekki verið birt en samkvæmt lista yfir keppendur fær Ragna þriðju röðun og er þar með talin líkleg til að komast í undanúrslit á mótinu. Það er ítalska stúlkan Agnese Allegrini sem er með fyrstu röðun og talin líkleg til að sigra mótið en hún er númer 44 á heimslistanum.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifa­ 30. jan˙ar, 2008
ALS