Badmintonkynning á Austurlandi

Badmintonsambandið er með badmintonkynningu og kennslu á Austurlandi í dag mánudag og á morgun þriðjudag. Að þessu sinni eru það íbúar á Seyðisfirði og Vopnafirði sem fá kennslu í badminton. Fyrr í vetur var Badmintonsambandið með samskonar kynningu á Þórshöfn á Langanesi.

Það er afrekskonan og badmintonþjálfarinn Tinna Helgadóttir sem sér um kynningarnar fyrir hönd sambandsins. Grunnskólar beggja sveitarfélaga verða heimsóttir og mun Tinna kenna í íþróttatímum skólanna. Bæði á Seyðisfirði og á Vopnafirði eru hópar fullorðinna sem spila badminton einu sinni til þrisvar sinnum í viku. Þessir hópar fá kennslu og leiðbeiningar í badmintoníþróttinni en einnig verða opnir tímar fyrir almenning sem hefur áhuga á að kynna sér íþróttina.

Það er von Badmintonsambandsins að Austfirðingar verði duglegir að nýta sér þessa kynningardaga.

Skrifað 28. janúar, 2008
ALS