Dregið í RIG - Iceland International

Dregið hefur verið í RIG - Iceland International sem hefst 28. janúar og stendur til 31. janúar. Meðþátttaka er í mótinu, sem er haldið í 19. skipti. Erlendir keppendur eru 113 talsins, nú þegar dregið hefur verið í mótið, auk 37 íslenskra keppenda. Erlendir keppendur koma frá 27 þjóðlöndum, Ástralíu, Azerbaijan, Búlgaríu, Tékklandi, Danmörku, Englandi, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen, Lúxemburg, Mauritius, Mexíkó, Hollandi, Noregi, Póllandi, Portúgal, Rúmeníu, Skotlandi, Slóvakíu, Sri Lanka, Svíþjóð, Sviss, Tyrklandi, Úganda og Wales.

Mótið hefst fimmtudaginn 28. janúar með forkeppni í einliðaleik karla og kvenna. Leikir í forkeppninni fara fram frá klukkan 10 til 14:30.

Í forkeppni einliðaleiks karla keppa 37 einstaklingar um átta sæti í aðalkeppninni, 15 íslenskir og 22 erlendir. Kári Gunnarsson er eini íslenski keppandinn sem fer beint í aðalkeppnina en hann mætir í fyrsta leik Darren Adamson frá Englandi. Adamson er númer 309 á heimslista en Kári er númer 220. Adrian Dziolko frá Póllandi er raðað númer eitt inn í einliðaleik karla en hann er númer 50 á heimslista og Milan Ludik er raðað númer tvö inn í greinina. Hann er númer 63 á heimslista og er sigurvegari RIG - Iceland International 2015.

 

Iceland International 2011

 

Í forkeppni einliðaleiks kvenna keppa átta einstaklingar um fjögur sæti í aðalkeppninni, fimm íslenskir og þrír erlendir. Þrír Íslendingar komust beint inn í aðalkeppnina, Sara Högnadóttir, Margrét Jóhannsdóttir og Harpa Hilmisdóttir. Sara mætir í fyrsta leik Cendrine Hantz frá Sviss. Sú svissneska er númer 189 á heimslista en Sara er númer 611. Margrét mætir keppanda sem kemur úr forkeppninni þannig að það skýrist ekki fyrr en á fimmtudeginum við hvern hún keppir í fyrstu umferð. Harpa mætir í fyrstu umferð Akvile Stapusaityte frá Litháen en hún hefur keppt á tveimur Ólympíuleikumm, meðal annars við Rögnu Ingólfsdóttur. Þá hefur hún komið ár eftir ár og keppt á Iceland International. Kate Foo Kune frá Mauritius er raðað númer eitt inn í einliðaleik kvenna og hún er númer 50 á heimslista. Kati Tolmoff frá Eistlandi er raðað númer tvö inn í greinina en hún er númer 70 á heimslista.

 

Iceland International 2011

 

Í tvíliðaleik karla keppa 29 pör, 11 íslensk og 18 erlend. Pólska parinu Pawel Pietryja og Wojciech Szkudlarczyk er raðað númer eitt inn í greinina en þeir eru númer 88 á heimslista í tvíliðaleik. Orkhan Qalandarov og Kanan Rzayev frá Azerbaijan er raðað númer tvö en þeir eru númer 210 á heimslista. Kári Gunnarsson og Atli Jóhannesson mæta Emil Langemark og Christoffer Holm Voldsgaard frá Danmörku í fyrstu umferð.
Í tvíliðaleik kvenna keppa 20 pör, sex íslensk og 14 erlend. Cemre Fere og Ebru Yazgan frá Tyrklandi er raðað númer eitt inn í greinina en þær eru númer 45 á heimslista. Aðra röðun fá Mathilda Lindholm og Jenny Nystrom frá Finnlandi en þær eru númer 175 á heimslista.

Í tvenndarleik keppa 26 pör, 12 íslensk og 14 erlend. Pawel Pietryja og Aneta Wojtkowska frá Póllandi fá fyrstu röðun. Þau eru númer 83 á heimslista. Aðra röðun fá Oliver Schaller og Céline Burkart frá Sviss en þau eru númer 107 á heimslista.

Keppni hefst á föstudeginum klukkan 9 og keppt er látlaus til klukkan 21:30 um kvöldið, fram í átta liða úrslit. Þau fara fram á laugardagsmorgninum og eftir hádegi fara fram undanúrslit. Á sunnudeginum eru spiluð úrslit og RÚV sýnir frá þeim.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar í RIG - Iceland International.

Skrifað 14. janúar, 2016
mg