Met í skráningu á Iceland International sem er hluti af RIG leikunum

Skráningu á alþjóðlega mótið Iceland International 2016 lauk þann 29. desember síðastliðinn. Mótið er hluti af RIG, Reykjavik International Games þriðja árið í röð.

 

RIG lógó 2016

 Algjört met er í þátttöku en alls hafa 124 erlendir keppendur skráð sig til þátttöku í mótinu. Í fyrra skráðu 107 erlendir keppendur sig sem var þá met en flestir en þar áður var metið 72 erlendir keppendur. Þetta er stigvaxandi aukning erlendra keppenda frá árinu 2011 en þá tóku 23 erlendir keppendur þátt. Þetta er í 19. skipti sem mótið er haldið en fyrst var það haldið árið 1997.

Keppendurnir koma frá 29 þjóðlöndum auk Íslandi; Azerbaijan, Ástralíu, Búlgaríu, Danmörku, Eistlandi, Englandi, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Litháen, Lúxemburg, Mauritus, Mexikó, Noregi, Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Skotlandi, Slóvakíu, Spáni, Sri Lanka, Sviss, Svíþjóð, Tékklandi, Tyrklandi, Ungverjalandi, Úganda, Wales og Þýskalandi. Keppendur frá Íslandi eru 39 talsins. Keppendur eru því 163 talsins í heildina.

64 keppendur eru skráðir í einliðaleik karla, 39 í einliðaleik kvenna, 31 par í tvíliðaleik karla, 21 par í tvíliðaleik kvenna og 28 pör í tvenndarleik.

Forkeppni verður í einliðaleik karla og einliðaleik kvenna. Forkeppnin fer fram fimmtudaginn 28. janúar. Aðalkeppnin hefst svo föstudaginn 29. janúar. Undanúrslit fara fram á laugardeginum 30. og úrslit á sunnudeginum 31. janúar.

RÚV mun sýna úrslitaleiki mótsins sunnudaginn 31. janúar.

Dregið verður í mótið 12. janúar. Badminton Europe sér um að draga í mótið.

Smellið hér til að sjá lista yfir keppendur.

Yfirdómari mótsins er Susana Maldonato frá Portúgal.

Skrifað 4. janúar, 2016
mg