Kári og Tinna valin badmintonfólk ársins 2015

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið Kára Gunnarsson badmintonmann og Tinnu Helgadóttur badmintonkonu ársins 2015. Kári og Tinna fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands miðvikudaginn 30. desember ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins.

 Tinna Helgadóttir og Kári Gunnarsson 2015

Kári og Tinna urðu bæði Íslandsmeistarar í einliða- og tvíliðaleik á árinu 2015, Kári ásamt Atla Jóhannessyni og Tinna ásamt Drífu Harðardóttur.

Eftirfarandi er samantekt á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2015.

Badmintonmaður ársins 2015 - Kári Gunnarsson f 11. janúar 1991

Badmintonmaður ársins 2015 er Kári Gunnarsson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.
Kári Gunnarsson er Íslandsmeistari í einliðaleik fjórða árið í röð og í tvíliðaleik ásamt Atla Jóhannessyni annað árið í röð.

Kári Gunnarsson á Evrópuleikunum 2015

Kári er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Heimsmeistaramóti landsliða í Kína á árinu. Hann átti þar mjög góða leiki og vann einliðaleik og þeir Atli unnu tvíliðaleiki í keppninni. Kári er mikilvægur í landsliði Íslands í badminton og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla. Hann var í unglingalandsliðum Íslands áður og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 17 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Kári vann sér inn þátttökurétt á Evrópuleikunum í Baku í sumar en leikarnir voru haldnir í fyrsta sinn og staða á heimslista sagði til um þátttökurétt. Kári hefur keppt á fjölda alþjóðlegra móta á árinu, móta sem eru á mótaskrá evrópska og alþjóða badmintonsambandanna. Hann hefur unnið sig hratt upp heimslistann en í upphafi ársins var hann í 627. sæti listans en er nú í 254. sæti. Tíu bestu mót innan mótaraðar alþjóða badminton-sambandsins mynda listann. Kári er að reyna að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári.

Kári var alinn upp í Danmörku og spilaði með Københavns Badminton Klub en fluttist til Íslands í lok ársins og mun keppa hérlendis sem og erlendis á vorönn 2016. Á árinu 2015 hefur hann keppt hérlendis auk Meistaramótsins á Meistaramóti BH og SETmóti KR og hann vann einliðaleikinn í báðum þessum mótum.

 

Badmintonkona ársins 2015 - Tinna Helgadóttir f. 25. apríl 1984

Badmintonkona ársins 2015 er Tinna Helgadóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur og Værløse í Danmörku.

Tinna varð tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton á árinu 2015, í einliðaleik og tvíliðaleik með Drífu Harðardóttur. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Tinnu í einliðaleik, en hún hampaði titilinum einnig árin 2009, 2013 og 2014. Tinna keppti á einu öðru móti á Íslandi á árinu, Meistaramóti TBR. Þar keppti hún í tvíliðaleik og tvenndarleik og vann báðar greinar ásamt meðspilurum sínum.

Tinna hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2004, þá tvítug að aldri. Tinna á 51 A-landsleik að baki fyrir Íslands hönd. Áður spilaði hún með unglingalandsliðum.

Tinna hefur spilað með danska liðinu Værløse á þessu ári. Hún spilar með Værløse 2 og hefur verið að spila með og á móti mörgum sterkustu badmintonspilurum heims en Værløse 2 spilar í dönsku fyrstu deildinni og er nú í fjórða deildarinnar.

Tinna Helgadóttir Íslandsmeistari í einliðaleik  

Tinna er nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands í badminton en hún tók við þeirri stöðu nú í desember.

Badmintonsamband Íslands óskar Kára og Tinnu kærlega til hamingju með valið.

 

Skrifađ 11. desember, 2015
mg