Ragna komin í aðra umferð

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir hóf keppni á alþjóðlega badmintonmótinu Swedish International Stockholm í dag. Hún sigraði í fyrstu umferð spænsku stúlkuna Bing Xing Xu naumlega í þriggja lotu leik 13-21, 21-9 og 22-20. Í annari umferð sem leikin verður kl. 17.45 í dag mætir Ragna sænsku stúlkunni Anastasiu Kudinovu. Anastasia er mjög sterkur leikmaður sem áður lék fyrir Rússland. Anastasia hefur ekki unnið nein mót undanfarna mánuði en hún hefur sigrað nokkra mjög sterka leikmenn sem eru á svipuðum slóðum og Ragna á heimslistanum. Ragna er með fjórðu röðun á mótinu en Anastasia þurfti að taka þátt í undankeppninni og telst því Ragna sterkari á pappírunum. Það er hinsvegar ljóst að hún þarf að spila vel til að sigra þá sænsku sem hefur sýnt í mörgum leikjum að hún er til alls líkleg.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Magnús Ingi Helgason á næsta leik íslensku leikmannanna í Svíþjóð en þar leikur hann tvíliðaleik ásamt írskum félaga sínum Daniel Magee.

Smellið hér til að skoða niðurröðun, tímasetningar og úrslit Swedish International Stockholm.

Skrifað 25. janúar, 2008
ALS