Nřr starfsma­ur

Badmintonsamband Íslands hefur ráðið til sín nýjan starfsmann til að sinna fræðslu- og útbreiðslustarfi sambandsins. Stjórn BSÍ er sérstaklega ánægð og stolt af því að hafa fengið til sín vel menntaðan einstakling sem hefur mikla reynslu úr badmintonheiminum til að sinna þessum málaflokki. Anna Lilja Sigurðardóttir, íþróttafræðingur og badmintonþjálfari, hefur verið ráðin í starfið. Anna Lilja er flestu badmintonfólki vel kunnug enda sinnti hún starfi unglingalandsliðsþjálfara BSÍ í nokkur ár auk þess sem hún var aðstoðar landsliðsþjálfari í tvo vetur. Hún hefur einnig verið þjálfari hjá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar um árabil. Anna Lilja hefur síðastliðin sex ár verið starfsmaður Íþróttabandalags Reykjavíkur en lætur nú af þeim störfum og snýr sér algerlega að badmintoníþróttinni.

Í erilsömu starfi framkvæmdastjóra og stjórnar hefur unnist alltof lítill tími til að sinna útbreiðslu og fræðslumálum badmintoníþróttarinnar. Hægt er að sækja í ýmsa sjóði tengdum þessum málaflokki sem ekki hefur tekist að sinna sökum manneklu. Stjórn BSÍ er viss um að ráðning Önnu Lilju verður bæði til hagsbóta fyrir öll badmintonfélög sem og til að bæta ímynd og þekkingu landans á íþróttinni okkar. Ása Pálsdóttir framkvæmdastjóri mun að sjálfsögðu halda áfram hjá Badmintonsambandinu sem framkvæmdastjóri.

Mörg verkefni falla undir starfssvið starfsmanns fræðslu- og útbreiðslusviðs. Uppsetning nýrrar heimasíðu, fréttatilkynningar og að útbúa fræðsluefni eru fyrstu verkefni sem liggja fyrir. Einnig þarf að endurskipuleggja þjálfaramenntunarkerfi íþróttagreinarinnar svo að hægt sé að koma af stað reglulegu námskeiðshaldi fyrir þjálfara. Mörg félög eru í vandræðum með að ráða til sín þjálfara og þurfa aðstoð og ráðleggingar í sambandi við rekstur deilda og mótahald. Markmiðið er að nýr starfsmaður komi þar til hjálpar.

Anna Lilja verður með aðsetur í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, húsi 4 á 3.hæð. Tölvupóstfangið hennar verður annalilja@badminton.is og símanúmer 868 6361.

Skrifa­ 11. september, 2007
ALS