Evrópuleikunum lauk í dag

Evrópuleikunum í Baku í Azerbaijan lauk í dag. Þetta voru fyrstu Evrópuleikarnir en þeir munu verða haldnir á fjögurra ára fresti.

Sigurvegarar badmintonkeppninnar eru eftirtaldir:

Einliðaleik kvenna vann Line Kjærsfeldt frá Danmörku en hún vann í úrslitum Lianne Tan frá Belgíu eftir oddalotu 18-21, 21-19 og 21-9. Kjærsfeldt hefur keppt á Iceland International mótinu. Í þriðja til fjórða sæti urðu Clara Azurmendi frá Spáni sem keppti hérlendis í nóvember og Petya Nedelcheva frá Búlgaríu.

Einliðaleik karla vann Pablo Abian frá Spáni en hann vann í úrslitum Emil Holst frá Danmörku 21-12 og 23-21. Í þriðja til fjórða sætu urðu Dieter Domke frá Þýskalandi og Kestutis Navickas frá Litháen en hann keppti á Iceland International í janúar síðastliðnum.

Tvíliðaleik kvenna unnu Stefani Stoeva og Gabriela Stoeva frá Búlgaríu en þær unnu í úrslitum Ekatarina Bolotova og Evgeniya Kosetskaya frá Rússlandi 21-12 og 23-21. Þær rússnesku kepptu á Iceland International í janúar sl. Í þriðja til fjórða sæti lentu Neslihan Yigit og Ozge Bayrak frá Tyrklandi sem keppti hérlendis í nóvember og Maria Helsbol og Lena Grebak frá Danmörku.

Tvíliðaleik karla unnu dönsku kempurnar Carsten Mogensen og Mathias Boe en þeir unnu í úrslitum Vladimir Ivanov og Ivan Sozonov frá Rússlandi 21-8 og 21-13. Í þriðja til fjórða sæti lentu Raphael Beck og Andreas Heinz frá Þýskalandi og Sam Magee og Joshua Magee frá Írlandi.

Tvenndarleik unnu Sara Thygesen og Niclas Nohr frá Danmörku en þau unnu í úrslitum Gaetan Mittelheisser og Audrey Fontaine frá Frakklandi 21-16 og 21-16. Í þriðja til fjórða sæti urðu Írarnir Chloe Magee og Sam Magee og Raphael Beck og Kira Kattenbeck frá Þýskalandi.

Lokahátíð Evrópuleikana fer fram á þriðjudaginn en Kári Gunnarsson verður fánaberi fyrir Íslands hönd.

Skrifað 28. júní, 2015
mg