Magnús Ingi og Daniel sigruðu í tvíliðaleik

Magnús Ingi Helgason, sem beið lægri hlut í fyrstu umferð í einliðaleik á Swedish International Stockholm í morgun, tekur einnig þátt í tvíliðaleik á mótinu. Þar leikur hann með írskum félaga sínum Daniel Magee en þeir Magnús Ingi og Daniel hafa báðir verið við æfingar í vetur hjá sænska badmintonfélaginu BMK Watterstad.

Í fyrstu umferð undankeppninnar í tvíliðaleik mættu þeir félagar Yauheni Yakauchuk og Aleksei Konakh frá Hvíta Rússlandi og sigruðu í tveimur lotum 21-17 og 21-16. Góður sigur hjá þeim Magnúsi og Daniel því Hvítrússarnir voru með aðra röðun í undankeppninni og taldir líklegir til að komast áfram. Í annari umferð og úrslitaviðureign um rétt á þátttöku í aðal mótinu mæta þeir Rainer Kaljumae og Tauno Tooming frá Eistlandi. Leikurinn fer fram kl. 18 í dag.

Tinna Helgadóttir leikur gegn dönsku stúlkunni Christinu Andersen kl. 16.30 í dag. Sigurvegarinn í viðureigninni vinnur sér rétt til þátttöku í aðal mótinu sem hefst á morgun föstudag.

Smellið hér til að skoða niðurröðun, tímasetningar og úrslit Swedish International Stockholm.

Skrifað 24. janúar, 2008
ALS