Tinna komin í aðra umferð

Þrír íslenskir landsliðsmenn eru nú staddir í Taby í Svíþjóð þar sem þeir taka þátt í alþjóðlega badmintonmótinu Swedish International Stockholm.

Tinna Helgadóttir var rétt í þessu að sigra norsku stúlkuna Söru B. Kverno í tveimur lotum 21-18 og 21-15 í undankeppni einliðaleiks kvenna. Góður sigur hjá Tinnu en sú norska er um tíu sætum fyrir ofan hana á heimslistanum og mjög reynslumikill leikmaður.

Í næstu umferð mætir Tinna dönsku stúlkunni Christinu Andersen. Christina er númer 201 á heimslistanum en Tinna er númer 293 og telst sú danska því sigurstranglegri í viðureigninni. Christina tók þátt í Iceland Express International í nóvember síðastliðnum og beið þá lægri hlut fyrir Rögnu Ingólfsdóttur í 16 liða úrslitum. Það verður spennandi að sjá hvernig gengur hjá Tinnu gegn þeirri dönsku en leikurinn fer fram um kl. 16.30 að íslenskum tíma í dag.

Í morgun féll Magnús Ingi Helgason bróðir Tinnu úr keppni í einliðaleik karla en þau systkinin taka þátt í tvenndarleik saman á morgun föstudag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir mun einnig leika á morgun en hún tekur ekki þátt í undankeppninni líkt og þau Magnús Ingi og Tinna.

Smellið hér til að skoða niðurröðun, tímasetningar og úrslit Swedish International Stockholm.

Tinna Helgadóttir     Tinna Helgadóttir    Tinna Helgadóttir

Skrifað 24. janúar, 2008
ALS