Kínverjar heimsmeistarar í tíunda sinn

Kína varð í dag heimsmeistari landsliða þegar Kínverjar lögðu Japan að velli 3-0 á Sudirman Cup. Þetta er tíundi heimsmeistaratitill Kína og sá sjötti í röð.

Í undanúrslitum unnu Kínverjar Indóneíu 3-1 og Japan vann Kóreu 3-2. Kínverjar unnu svo fyrir fullu húsi á heimavelli.

Keppt var í tvíliðaleik karla sem Kínverjar unnu eftir oddalotu 21-17, 20-22 og 21-17 en þar öttu kappi Fu Haifeng og Zhang Nan gegn Hiroyuki Endo og Kenichi Hayakawa. Einliðaleik kvenna vann Li Xuerui 23-21 og 21-14 en hún keppti gegn Akane Yamaguchi. Síðasti leikurinn var einliðaleikur karla en þar vann Lin Dan, annar á heimslista, Takuma Ueda 21-15 og 21-13.

Með því tryggði heimaþjóðin sinn tíunda heimsmeistaratitil.

Skrifađ 17. maí, 2015
mg