Íslensku keppendurnir úr leik í Póllandi

Annar dagur Evrópukeppni U19 fór fram í dag í Póllandi.

Davíð Bjarni Björnsson og Alda Karen Jónsdóttir kepptu í tvenndarleik við Michal Hubacek og Monika Svetnickova frá Tékklandi. Þeim var raðað númer níu inn í tvenndarleikinn en 16 fengu röðun og 75 pör tóku þátt í greininni. Davíð Bjarni og Alda Karen töpuðu 19-21 og 12-21.

Pálmi Guðfinnsson lék einliðaleik gegn Wolfgang Gnedt frá Austurríki en honum var raðað númer átta inn í greinina. Pálmi tapaði 6-21 og 17-21.

Einliðaleik kvenna spilaði Harpa Hilmisdóttir gegn Holly Newall frá Skotlandi. Harpa tapaði 13-21 og 16-21.
Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson léku tvíliðaleik karla gegn Michal Hubacek og Kan Somerlik frá Tékklandi og töpuðu 17-21 og 20-22.

Harpa Hilmisdóttir átti að leika tvíliðaleik kvenna með Sigríði Árnadóttur en þar sem Sigríður meiddist í síðustu viku spilaði Harpa með Nina Sorger frá Austurríki. Þær mættu Presence Beelen og Ann Knaepen frá Belgíu og töpuðu 13-21 og 20-22.

Með því hafa allir íslensku keppendurnir lokið keppni í Evrópukeppni U19. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit dagsins.

Skrifað 31. mars, 2015
mg