Sænska opna hefst á fimmtudag

Niðurröðunin fyrir Swedish International Stockholm sem fram fer í Taby 24.-27.janúar næstkomandi hefur nú verið birt. Þrír íslenskir leikmenn keppa á mótinu, Magnús Ingi Helgason, Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir. Smellið hér til að skoða niðurröðunina.

Magnús Ingi Helgason þarf að leika í undankeppni mótsins í einliðaleik karla sem fram fer á fimmtudag. Í undankeppninni keppa 48 leikmenn um átta laus sæti í aðal mótinu. Í fyrstu umferð mætir Magnús Ingi Svíanum Gabriel Ulldahl. Gabriel hefur tekið þátt í mörgum mótum undanfarið ár en aðeins tvisvar komist uppúr undankeppninni. Hann er númer 316 á heimslistanum en Magnús Ingi er númer 349.

Ragna Ingólfsdóttir er með fjórðu röðun á mótinu sem þýðir að líkur eru taldar á því að hún komist í undanúrslit. Í fyrstu umferð mætir Ragna leikmanni úr undankeppni mótsins sem leikin verður á fimmtudag. Mjög erfitt er að geta til um hver það verður sem Ragna mætir en Kristine Sefere frá Lettlandi er þó talin líklegust. Fyrsti leikur Rögnu fer fram kl. 12.00 á hádegi að íslenskum tíma á föstudag.

Tinna Helgadóttir leikur í undankeppninni í einliðaleik kvenna en þar keppa 32 stúlkur um átta laus sæti í aðal mótinu. Tinna mætir í fyrstu umferð norsku stúlkunni Söru B. Kverno sem er númer 284 á heimslistanum en sjálf er Tinna númer 293 á sama lista. Ekki er vitað til þess að þær Sara og Tinna hafi mæst áður í alþjóðlegu móti.

Þau Magnús Ingi og Tinna Helgabörn taka einnig þátt í tvenndarleik í Svíþjóð en þar fara þau beint inní aðal mótið og þurfa ekki að leika í undankeppninni. Í fyrstu umferð mæta þau skoska parinu Watson Briggs og Jillie Cooper. Watson og Jillie eru mjög sterk í tvenndarleik en hafa reyndar ekki leikið saman að undanförnu þau eru annarsvegar númer 72 og númer 86 á heimslistanum með öðrum meðspilurum. Magnús Ingi og Tinna eru númer 236 á heimslistanum en þau hafa tekið þátt í mun færri mótum og því staða þeirra varla samanburðarhæf.

Swedish International hefst á fimmtudag kl. 8.00 að íslenskum tíma á undankeppni. Magnús Ingi á leik strax í fyrstu umferð kl. 8 en Tinna hefur keppni um kl.10. Nái þau að sigra andstæðinga sína í fyrstu umferð eiga þau aftur leik seinni part dagsins. Á föstudag hefst síðan aðal mótið en þá hefst keppni á tvenndarleik kl. 8 og síðan einliðaleik karla og kvenna í framhaldinu. Ragna á leik kl. 12 og Tinna kl. 11.30 komist hún áfram úr undankeppninni.

Smellið hér til að fylgjast með framgangi mótsins.

Skrifað 22. janúar, 2008
ALS