Kári, Gunnar Bjarki og Margrét þrefaldir meistarar

Þau Kári Gunnarsson, Gunnar Bjarki Björnsson og Margrét Jóhannsdóttir sigruðu þrefalt í sínum flokkum á Unglingameistaramóti TBR sem fram fór í TBR húsunum um helgina. Kári sigraði í U17 flokknum en Margrét í U13. Gunnar Bjarki sigraði hinsvegar í U13 og U15 flokknum en hann gerði sér lítið fyrir og spilaði upp um flokk í einliðaleik og sigraði samt. Með Kára í tvíliðaleik spilaði danskur félagi hans Rasmus Otkjær en í tvenndarleik Sunna Ösp Runólfsdóttir. Margrét sigraði í tvíliðaleik með Söru Högnadóttur en í tvenndarleik með Gunnari Bjarka Björnssyni. Gunnar Bjarki sigraði í tvíliðaleik með Eyþóri Andra Rúnarssyni.

Fjórir danskir gestir frá Köbenhavn Badminton Klub (KBK) tóku þátt í mótinu sem var með alþjóðlegum blæ að þessu sinni. Mótið var hluti af alþjóðlega mótinu Reykjavík International þar sem keppt var í níu mismunandi íþróttagreinum undir forystu Íþróttabandalags Reykjavíkur í Laugardalnum. Mótið heppnaðist mjög vel og endaði með miklu diskóteki í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöld.

Smellið hér til að skoða úrslit Unglingameistaramóts TBR 2008. 

Skrifað 21. janúar, 2008
ALS