Þrír íslenskir keppendur á Alþjóðlega sænska mótinu

Alþjóðlega sænska mótið, Swedish Masters, hófst í dag með forkeppni í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Þrír íslenskir keppendur taka þátt í mótinu, Kári Gunnarsson, Margrét Jóhannsdóttir og Sara Högnadóttir.

Kári lék fyrsta leik sinn gegn Adrian Demetriades frá Svíþjóð og vann auðveldlega 21-8 og 21-10. Í annarri umferð forkeppnarinnar lék hann gegn Agaton Svenaeus frá Svíþjóð. Kári vann þann leik einnig 21-15 og 21-9. Í þriðju umferð mætti Kári Matthias Wigardt frá Svíþjóð sem hafði í annarri umferð unnið Sam Parsons frá Englandi en sá er væntanlegur hingað á Iceland International í næstu viku. Fyrri lotan gekk ekki vel hjá Kára og henni lauk 21-11 fyrir þeim sænska. Seinni lotan var miklu jafnari og Kári var með yfirhöndina upp í 13 en eftir það var nánast jafnt á öllum stigum. Lotunni lauk síðan með sigri Wigardt 23-21. Með því lauk Kári keppni í mótinu.

 

Kári Gunnarsson

 

Sara lék gegn Anastasia Chervyakova frá Rússlandi en henni var raðað númer fimm inn í forkeppnina. Sara tapaði 16-21 og 11-21 og lauk því keppni í einliðaleik.

Margrét lék tvær umferðir í forkeppninni. Í fyrstu umferð vann hún Kati-Kreet Marran frá Eistlandi eftir oddalotu 12-21, 21-14 og 21-14. Í annarri umferð mætti Margrét Flore Vandenhoucke frá Belgíu. Sú vann fyrri lotuna 21-12 en seinni lotan var mjög jöfn og í stöðunni 21-21 gat allt gerst. Sú belgíska fékk hins vegar tvö síðustu stigin og vann lotuna 23-21. Með því lauk Margrét keppni í einliðaleik.

Margrét og Sara taka einnig þátt í tvíliðaleik. Í fyrstu komust þær ekki inn í mótið en vegna forfalla fengu þær pláss í forkeppni í tvíliðaleik. Þær mættu Julie Dawall Jakobsen og Sara Lundgaard frá Danmörku. Þær dönsku höfðu yfirhöndina alla fyrri lotuna sem endaði 21-16 fyrir þær. Seinni lotan fór eins og lauk einnig 21-16. Margrét og Sara hafa því lokið keppni á Swedish Masters mótinu.

 

Iceland International 2011

 

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á mótinu. Einnig er hægt að fylgjast með Live Score á þessu móti með því að smella hér. Margir keppendur sem munu keppa á Iceland International mótinu í næstu viku taka einnig þátt í þessu móti í Svíþjóð.

Skrifað 15. janúar, 2015
mg