Mikið mótahald framundan á Englandi

Það verður nóg um að vera hjá badmintonfólki í Englandi á næstu árum. Badmintonsambandið þar í landi hefur fengið úthlutað framkvæmd margra stórra badmintonviðburða og munu eflaust standa í ströngu vegna þeirra.

Eins og flestir vita verða Ólympíuleikarnir haldnir í London 2012 en þar er badminton á meðal keppnisgreina. Nýlega úthlutaði Alþjóða Badmintonsambandið Englendingum framkvæmd Heimsmeistaramótsins 2011. Í vikunni bættust svo tvö önnur mót við en Badmintonsamband Evrópu hefur ákveðið að Evrópumót landsliða (karlar og konur saman) verður haldið í Liverpool 2009 og Evrópumót einstaklinga verður haldið í Manchester 2010. Þetta verður í fyrsta sinn sem Evrópumótinu er skipt upp þ.e. að liða og einstalingskeppnin sé ekki leikin á sama tíma. Hægt er að lesa nánar um Evrópumótin í Englandi á heimasíðu Badminton Europe.

Það er ánægjulegt fyrir íslenskt badmintonfólk að Englendingar haldi svona marga badmintonviðburði á næstunni því þangað er einna auðveldast að ferðast af Evrópulöndunum.

Skrifað 18. janúar, 2008
ALS