Ísland sigraði Tyrkland

Íslenska landsliðið sigraði Tyrki 3-2 í síðasta leik fimmta riðils undankeppni Evrópumótsins í badminton í dag. Leikurinn var sérstakur að því leiti að Tyrkir gáfu bæði tvíliðaleik karla og tvenndarleik rétt eftir að leikirnir hófust, að eigin sögn vegna meiðsla.
 
Fyrsti leikurinn var einliðaleikur karla þar sem Kári Gunnarsson mætti Emre Vural. Emre sigraði fyrstu lotuna 21-15. Næstu tvær lotur spilaði Kári af mikilli yfirvegun og sigraði glæsilega 21-14 og 21-10.
 
Sara Högnadóttir spilaði síðan einliðaleik kvenna fyrir Ísland gegn Neslihan Yigit. Neslihan sem er númer 92 á heimslistanum hafði yfirhöndina í leiknum allan tímann og sigraði örugglega 21-9 og 21-6.
 
Í tvíliðaleik karla mættu þeir Kári Gunnarsson og Atli Jóhannesson Emre Lale og Emre Vural. Þegar staðan var 4-7 fyrir Tyrkland sagði annar Tyrkjanna að hann hefði tognað í lærinu og að þeir yrðu að gefa leikinn. Fóru þeir rakleitt úr húsi að því loknu.
 
Því næst mættu þær Özge Bayrak og Neslihan Yigit Sigríði Árnadóttur og Snjólaugu Jóhannsdóttur í tvíliðaleik kvenna. Þær tyrknesku sem eru númer 50 á heimslistanum voru geysi sterkar og sigruðu íslensku stelpurnar örugglega 21-7 og 21-10.
 
Nú var staðan orðin 2-2 í viðureign Íslands og Tyrklands og ljóst að tvenndarleikurinn myndi ráða úrslitum. Fyrir Íslands hönd léku þau Daníel Thomsen og Rakel Jóhannesdóttir og fyrir Tyrki þau Ramazan Özturk og Neslihan Kilic.  Í stöðunni 5-0 fyrir Tyrkland kenndi Ramazan sér meins í öxl og gáfu Tyrkirnir því leikinn.
 
Ísland, Tyrkland og Króatía unnu einn leik hvert en Spánn vann alla sína leiki og tryggði sér með því þátttökurétt á Evrópumótinu sem fram fer í Belgíu í febrúar.
 
Smellið hér til að skoða úrslit allra leikja í fimmta riðli undankeppni Evrópumótsins.
 
Badmintonsambandið þakkar öllum þeim sem komu að því að gera keppnina um helgina eins vel heppnaða og raun bar vitni kærlega fyrir sitt framlag. Umgjörðin í TBR húsinu var glæsileg og sýnt frá öllum leikjum í beinni útsendingu á SportTV og RÚV.

Skrifað 9. nóvember, 2014
ALS