Magnús Ingi, Ragna og Tinna keppa á Sænska Opna

Swedish International Stockholm fer fram í Taby 24.-27.janúar næstkomandi. Þrír íslenskir leikmenn keppa á mótinu, þau Magnús Ingi Helgason, Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir. Búið er að gefa út lista yfir þá leikmenn sem komast inní mótið, hverjir þurfa að leika undankeppni og hverjir lenda á biðlista.

Ragna Ingólfsdóttir er eini íslenski keppandinn sem kemst beint inní aðal mótið sjálft en hún er talin fjórða sterkasta einliðaleikskona mótsins af þeim 24 sem komast beint inn. Sterkasti leikmaðurinn í einliðaleik kvenna er talin vera heimamaðurinn Sara Persson en hún er númer 33 á heimslistanum. Tinna mun leika í undankeppninni í einliðaleik kvenna en þar keppa 32 stúlkur um átta laus sæti í aðal mótinu. 

Magnús Ingi keppir í undankeppninni í einliðaleik karla en þar bítast 48 leikmenn um sjö laus sæti í aðal mótinu. Þá keppa þau Magnús Ingi og Tinna einnig í tvenndarleik. Þar voru þau ansi nálægt því að komast inní aðal mótið en þau eru talin fjórða sterkasta parið í undankeppninni. Sextán tvenndarleikspör keppa um fjögur laus sæti í aðal mótinu í tvenndarleik.

Niðurröðun mótsins verður birt í síðasta lagi 21.janúar næstkomandi. Nánari upplýsingar um mótið má finna með því að smella hér. 

Skrifað 11. janúar, 2008
ALS