Carolina Marin er heimsmeistari í einliðaleik kvenna

Carolina Marin frá Spáni varð rétt í þessu heimsmeistari í einliðaleik kvenna. Hún atti kappi við Xuerui Li frá Kína. Leikurinn var æsispennandi og þurfti oddalotu til að knýja fram úrslit. Úrslit urðu 17-21, 21-17 og 21-18 en leikurinn tók klukkutíma og 18 mínútur. Fyrir úrslitaleikinn var Carolina í níunda sæti heimslistans en Xuerui Li var í efsta sætinu.

Spænska landsliðið sækir okkur heim í nóvember þegar undankeppni Evrópumótsins fer fram og því verður mikill hvalreki fyrir badminton hér á landi að fá heimsmeistara sem mun ef af líkum leiðir keppa við landsliðið okkar.

Af öðrum úrslitum á HM þá unnu Kínverjarnir Quing Tian/Yunlei Zhao landa sína Xiaoli Wang/Yang Yu 21-19 og 21-15. Kóresku konurnar Sung Hyun Ko/Baek Choel Shin unnu löndur sínar Yong Dae Lee/Yeon Seong Yoo í æsispennandi leik 22-20, 21-23 og 21-18. Í úrslita leik í karlaflokki vann Long Chen frá Kína Chong Wei Lee frá Malasíu 21-19 og 21-19. Long Chen er númer tvö á heimslistanum en Chong Wei Lee í efsta sæti listans og því áttu fleiri von á sigri Lee. Í tvenndarleik mættust kínversku pörin Nan Zhang/Yunlei Zhao og Chen Xu/Jin Ma. Leikurinn fór í oddalotu sem lauk með sigri fyrrnefnda parsins 21-12, 21-23 og 21-13.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á HM.

Skrifað 31. ágúst, 2014
mg