Danir í úrslitum í öllum greinum

Evrópukeppni einstaklinga er nú í gangi í Rússlandi. Í dag fóru undanúrslit fram í öllum greinum. Í einliðaleik karla mættust annars vegar Danarnir Jan Ö Jörgensen (1) og Viktor Axelsen (4) en Jörgensen vann örugglega 21-11 og 21-13 og hins vegar Rajiv Ouseph (5) frá Englandi og Vladimir Ivanov frá Rússlandi. Ouseph vann eftir oddalotu 25-23, 13-21 og 21-8. Á morgun mætast því í úrslitum Jörgensen frá Danmörku og Ouseph frá Englandi.

Í einliðaleik kvenna mættust annars vegar Carolina Marin (1) frá Spáni og Karin Schnaase frá Þýskalandi en Marin vann örugglega 21-12 og 21-9. Hins vegar mættust Anna Thea Madsen frá Danmörku og Ozge Bayrak frá Tyrklandi. Madsen vann 21-10 og 21-14. Á morgun mætast því í úrslitum Marin frá Spáni og Madsen frá Danmörku.

Í öðrum undanúrslitaleiknum í tvíliðaleik karla mættust Mathias Boe og Carsten Mogensen (1) frá Danmörku og Vladimir Ivanov og Ivan Sozonov (3) frá Rússlandi. Leikurinn fór í oddalotu sem var jöfn á nánast öllum stigum undir lok leiksins en endaði að lokum með sigri Rússanna. Í hinum leiknum léku Mads Conrad-Petersen og Mads Pieler Kolding(4) gegn Chris Adcock og Andrew Ellis frá Englandi (2) og þeirri viðureign lauk með sigri Dananna eftir oddalotu 21-16, 19-21 og 21-8. Heimamenn eiga því eitt lið í úrslitum á morgun.

Í tvíliðaleik kvenna mættust í undanúrslitum annars vegar Christinna Pedersen og Kamilla Rytter Juhl (1) frá Danmörku og Imogen Bankier frá Skotlandi og Petya Nedelcheva frá Búlgaríu (4). Þær dönsku unnu eftir oddalotu 12-21, 21-13 og 21-7. Hins vegar mættust Line Damkjær Kruse og Marie Roepke (3) frá Danmörku og Eefje Muskens og Selena Piel (2) frá Hollandi. Damkjær Kruse og Roepke unnu 22-20 og 21-11. Það verður því danskur slagur í tvíliðaleik kvenna í úrslitum á morgun.

Í tvenndarleik mættust í undanúrslitum Joachim Fischer Nielsen og Christinna Pedersen (1) frá Danmörku og Jorrit De Ruiter og Samantha Barning frá Hollandi sem endaði með auðveldum sigri Dananna 21-12 og 21-8. Í hinum undanúrslitaleiknum léku Mads Pieler Kolding og Kamilla Rytter Juhl frá Danmörku gegn Anders Kristiansen og Julie Houmann frá Danmörku. Pieler Kolding og Rytter Juhl unnu 21-14 og 21-17. Það verður líka danskur slagur í úrslitum í tvenndarleik.Pedersen og Rytter Juhl leika til úrslita í tveimur greinum, tvíliðaleik og tvenndarleik.

Hægt er að fylgjast leikjum keppninnar með því að smella hér.

 

Skrifađ 26. apríl, 2014
mg