Magnús Ingi þrefaldur á Meistaramóti TBR

Badmintonmótið Meistaramót TBR sem er hluti af Stjörnumótaröð Badmintonsambands Íslands fór fram í TBR húsunum um helgina. Á mótinu kepptu flestir af sterkustu badmintonmönnum landsins en heildarfjöldi keppenda var 105.

Í meistaraflokki karla átti Magnús Ingi Helgason góða helgi og sigraði þrefalt á mótinu. Í einliðaleik sigraði hann meðal annara hin feiknar sterka Huga Heimisson og margfaldan Íslandsmeistara Helga Jóhannesson. Í tvíliðaleik sigraði Magnús ásamt Helga Jóhannessyni og í tvenndarleik ásamt systur sinni Tinnu Helgadóttur.

Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir urðu báðar tvölfaldir meistarar í meistaraflokki kvenna. Sara sigraði nokkuð óvænt Tinnu Helgadóttur í undanúrslitum og síðan Katrínu Atladóttur í úrslitaleiknum sjálfum í einliðaleik. Þá sigruðu þær Sara og Tinna saman í tvíliðaleik kvenna og eins og áður sagði sigruðu þau Magnús Ingi og Tinna tvenndarleikinn.

Í A-flokki voru þau Rakel Jóhannesdóttir úr TBR og Kjartan Ágúst Valsson úr BH bæði tvölfaldir meistarar og sigruðu bæði í einliða- og tvíliðaleik. Í B-flokki var það Margrét Jóhannsdóttir sem náði að sigra tvöfalt en hún vann bæði einliða- og tvenndarleik.

Smellið hér til að skoða nánari úrslit Meistaramóts TBR 2008.

Myndir frá mótinu er hægt að skoða á heimasíðu TBR eða með því að smella hér. 

Skrifað 6. janúar, 2008
ALS