Badmintonáriđ 2007

Í lok hvers árs er oft fróðlegt að líta yfir farin veg og skoða hvað hefur áunnist á árinu sem er að líða. Árið 2007 hefur verið sérstaklega viðburðaríkt hjá badmintonfólki. Badmintonsamband Íslands varð 40 ára á árinu og var haldið uppá það með ýmsum hætti. Evrópukeppni B-þjóða var haldin hér á landi í janúar þar sem íslenska landsliðið sigraði svo eftirminnilega. Þá hefur badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir verið sérstaklega mikið á faraldsfæti í baráttu sinni við að komast á Ólympíuleikana og staðið sig ótrúlega vel. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir helstu viðburði badmintonársins 2007.

Janúar

Evrópukeppni B-þjóða fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Íslensku áhorfendurnir fengu heldur betur að upplifa stemningu og fjör því íslenska landsliðið hélt spennunni í hámarki. Fyrirfram var talið að Portúgalir eða Ítalir myndu vinna riðil íslenska liðsins en raunin varð önnur. Íslenska landsliðið gerði sér lítið fyrir og sigraði bæði Portúgal og Ítalíu í riðlinum. Í undanúrslitum var það síðan Sviss sem lá fyrir íslenska liðinu. Í sjálfum úrslitaleiknum sigraði Ísland Írland 3-2 og tryggði sér þar með Evrópumeistaratitilinn. Erlendir leikmenn, línuverðir og dómarar höfðu á því orð að umgjörðin í Laugardalshöllinni hefði verið frábær og sögðu sumir að þetta væri best skipulagðasta og flottasta mót sem þeir hefðu komið á. Mótið var því stórsigur fyrir íslenskt badminton á öllum vígstöðvum.

Febrúar

Hin árlega Deildakeppni BSÍ fór fram fyrstu helgina í febrúar. Mjög mörg lið tóku þátt í keppninni þetta árið. Í Meistaradeildinni sigraði B lið Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur, í A deildinni sigraði lið Badmintonfélags Hafnarfjarðar og í B deildinni sigraði lið Ungmennafélagsins Aftureldingar úr Mosfellsbæ.

Mars

Íslandsmót unglinga fór fram í Hafnarfirði í samvinnu við Badmintonfélag Hafnarfjarðar. Þrjár stúlkur urðu þrefaldir meistarar en það voru þær Hanna María Guðbjartsdóttir, ÍA, Sunna Ösp Runólfsdóttir, TBR, og Margrét Jóhannsdóttir, TBR. Lið UMSB var valið prúðasta lið mótsins.

Ragna Ingólfsdóttir komst í undanúrslit á Croatian International sem fram fór í Zagreb.

Apríl

Meistaramót Íslands fór fram í TBR-húsunu. Ragna Ingólfsdóttir varð þrefaldur meistari í fyrsta sinn. Magnús Ingi Helgason varð Íslandsmeistari í einliðaleik karla í fyrsta sinn.

U19 landsliðið tók þátt í Evrópumóti unglinga sem haldið var í Þýskalandi. Atli Jóhannesson, Daníel Thomsen, Hanna María Guðbjartsdóttir og Hrefna Rós Matthíasdóttir tóku þátt í mótinu fyrir Íslands hönd. Íslensku leikmennirnir náðu ekki að vinna neinn leik að þessu sinni.

Íslandsmeistarinn í badminton, Ragna Ingólfsdóttir, varð að taka sér mánaðarfrí frá keppni þar sem í ljós kom að fremra krossband í vinstri fæti var slitið hjá henni. Ragna meiddist á Opna hollenska mótinu þegar hún rann til á mjög sleipu keppnisgólfi í viðureign í annarri umferð mótsins. Við það kom högg á hnéð og þá slitnaði krossbandið. Ragna tók þá ákvörðun í samráði við lækni að fara ekki í aðgerð heldur styrkja vöðva í kringum svæðið. Aðgerð hefði líklega þýtt að draumurinn um að komast á Ólympíuleikana væri úti þar sem að endurhæfing eftir slíka aðgerð er mjög löng.

Maí

Þing Badmintonsambands Íslands fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir var endurkjörin sem formaður sambandsins.

Ragna Ingólfsdóttir varð í 3.sæti á Evrópumótaröðinni 2006-2007. Frábær árangur hjá Rögnu sem sigraði bæði á Iceland Express International og Tékkneska opna á tímabilinu og komst langt í mörgum öðrum mótum.

U17 landsliðið tók þátt í unglingamóti í Gautaborg í Svíþjóð. Mótið var einstaklingskeppni þar sem saman voru komnir keppendur frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Íslandi. Íslensku krakkarnir unnu marga leiki og stóðu sig vel á mótinu. Kári Gunnarsson varð í 2.sæti í einliðaleik og Rakel Jóhannesdóttir og Elín Þóra Elíasdóttir komust í undanúrslit í tvíliðaleik.

Júní

Íslenska landsliðið tók þátt í Heimsmeistarakeppni landsliða, Sudirman Cup, sem fram fór í Skotlandi. Ísland spilaði í sjöttu og neðstu deild mótsins. Niðurröðun í deildir var mjög umdeild. Íslenska liðið stóð sig ágætlega og endaði í 5.sæti af átta þjóðum í deildinni.

Lið TBR tók þátt í Evrópukeppni félagsliða á Spáni. Liðið varð í þriðja sæti í sínum riðli og komst því ekki áfram í úrslitakeppni mótsins.

Júlí

Ragna Ingólfsdóttir varð í öðru sæti á Victorian International sem fram fór í Melburn í Ástralíu. Það létti mörgum að sjá að Ragna væri komin á skrið aftur eftir krossbandaslitið.

Róbert Þór Henn, Heiðar B. Sigurjónsson, Sindri Jarlsson og Una Harðardóttir tóku þátt í Evrópuskólanum sem eru æfingabúðir á vegum Badmintonsambands Evrópu. Evrópuskólinn var að þessu sinni haldinn í Nymburk í Tékklandi.

Ágúst

Ragna vann sér þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu í badminton sem fram fór í Kuala Lumpur í Malasíu. Hún tapaði í fyrstu umferð mótsins en engu að síður góður árangur hjá Rögnu að vinna sér þátttökurétt á mótinu.

September

Nýr starfsmaður, Anna Lilja Sigurðardóttir, var ráðinn á skrifstofu Badmintonsambandsins til að sinna fræðslu-, útbreiðslu- og kynningarmálum Badmintonsambandsins. Í fyrsta sinn starfa því tveir starfsmenn á skrifstofu sambandsins.

Opnuð var ný heimasíða Badmintonsambandsins í mánuðinum. Markmiðið var að síðan yrði uppfærð með fréttum daglega ásamt því að þar væri hægt að finna allar upplýsingar um badmintoníþróttina, badmintonfélög o.fl.

Október

Ragna komst í undanúrslit á Cyprus Badminton International. Þá varð hún í öðru sæti í tvíliðaleik kvenna á sama móti ásamt Kati Tolmoff frá Eistlandi.

Landslið Íslands skipað leikmönnum í flokknum U17 tók þátt í Evrópukeppni U17 unglinga í Istanbul í Tyrklandi. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskt landslið tók þátt í þessu móti. U17 liðinu tókst ekki að vinna neinn landsleik á mótinu og endaði í neðsta sæti. Nokkrir einstaklingar í liðinu náðu þó mjög góðum árangri og unnu góða sigra.

Atli Jóhannesson tók þátt í æfingabúðunum EPOF 2012 á vegum Badmintonsambands Evrópu. Æfingabúðirnar eru haldnar fyrir unga og efnilega leikmenn víðsvegar úr Evrópu sem talið er líklegt að eigi möguleika á að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum 2012 í London. Mikill heiður fyrir Atla að fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni.

Nóvember

Ragna Ingólfsdóttir sigraði á Yonex Hungarian International í Búdapest í Ungverjalandi. Frábær árangur hjá Rögnu sem sannarlega náði að rífa sig uppúr meiðslunum sem hún hlaut í apríl. Sigurinn gaf mörg stig á heimslistanum og því mjög mikilvægur í baráttu Rögnu við að komast á Ólympíuleikana í Peking 2008.

Iceland Express International fór fram að venju í TBR húsunum. Íslensku leikmennirnir stóðu sig mjög vel á mótinu. Ragna Ingólfsdóttir sigraði í einliðaleik og stelpurnar okkar Ragna og Katrín annars vegar og Sara og Tinna hinsvegar léku hreinan úrslitaleik kvenna á mótinu. Þá komust strákarnir Tryggvi og Magnús Ingi í undanúrslit í tvíliðaleik karla með því að sigra fyrirfram talið sterkasta par mótsins.

Badmintonsamband Íslands varð 40 ára. Haldin var vegleg veisla í TBR húsunum í tengslum við Iceland Express International. Þá fór samráðsfundur badmintonsambandanna á Norðurlöndunum fram hér á landi á sama tíma.

Desember

Ragna Ingólfsdóttir varð í 2.sæti á Hellas Victor International sem fram fór í Thessaloniki í Grikklandi. Álagsmeiðsli í hæl urðu til þess að Ragna varð að gefa úrslitaleikinn. Ekki var talið að meiðslin væru mjög alvarleg og líklegt að hægt væri að vinna bug á þeim fljótlega með hvíld og meðferð hjá sjúkraþjálfara.

Ragna Ingólfsdóttir varð í 3.sæti í kjöri Íþróttamanns ársins. Aldrei hefur badmintonmaður náð jafn langt í kjörinu en það eru Samtök íþróttafréttamanna sem standa að því.

 

Fyrir utan ofangreinda viðburði fóru að sjálfsögðu fram fjöldinn allur af badmintonmótum hjá badmintonfélögum um land allt á árinu. Þá voru bæði félög og einstaklingar á faraldsfæti eins og venjan er til að öðlast keppnisreynslu og fá fjölbreyttari andstæðinga.

Stjórn og starfsmenn Badmintonsambands Íslands senda badmintonfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár og þakkir fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða. Það er von allra að badmintonárið 2008 verði jafn viðburðaríkt og skemmtilegt og árið 2007.

Skrifađ 31. desember, 2007
ALS