Magnús Ingi og Ragna badmintonmenn ársins

Á sameiginlegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fram fór í kvöld voru íþróttamenn sérsambanda ÍSÍ fyrir árið 2007 kjörnir.

Magnús Ingi Helgason var kjörinn badmintonmaður ársins og Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona ársins. Magnús Ingi og Ragna urðu bæði Íslandsmeistarar í einliðaleik á árinu ásamt því að þau voru í landsliði Íslands sem sigraði svo eftirminnilega á Evrópukeppni B-þjóða sem fram fór í Laugardalshöll í janúar.

Eftirfarandi er stutt yfirlit yfir árangur Magnúsar Inga og Rögnu á árinu.

Badmintonmaður árins 2007
Magnús Ingi Helgason f. 5.apríl 1980

Magnús Ingi Helgason badmintonmaður úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur er badmintonmaður árinsins 2007.

Magnús Ingi er Íslandsmeistari í einliðaleik karla og tvíliðaleik karla ásamt Helga Jóhannessyni. Þá vann hann einnig til silfurverðlauna á Íslandsmótinu í tvenndarleik ásamt Tinnu Helgadóttur.

Magnús Ingi var einn af burðarásum íslenska landsliðsins í badminton þegar það sigraði Evrópukeppni B-þjóða í Laugardalshöllinni í janúar. Sigur liðsins var nokkuð óvæntur en það voru meðal annars góðir tvíliðaleikir Magnúsar Inga og Helga Jóhannessonar sem lönduðu sigrinum.

Á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International sem fram fór í Reykjavík í nóvember stóð Magnús Ingi sig einstaklega vel. Hann og Tryggvi Nielsen sigruðu óvænt sterkt danskt par og fyrirfram áætlað sterkasta par mótsins frá Guatemala í tvíliðaleik karla.

Magnús Ingi dvaldi í Danmörku veturinn 2006-2007 þar sem hann lagði stund á nám í badmintonþjálfun ásamt því að hann lék í 1.deildinni í Danmörku og þjálfaði hjá dönsku félagsliði við góðan orðstý. Frá og með hausti 2007 dvelur Magnús Ingi við æfingar og keppni í Svíþjóð.

Badmintonkona ársins 2007
Ragna Ingólfsdóttir f. 22.febrúar 1983

Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur er badmintonkona ársins 2007.

Ragna náði þeim frábæra árangri á árinu að verða þrefaldur Íslandsmeistari í badminton en hún er sjötta konan í sögu badmintoníþróttarinn á Íslandi sem nær þeim árangri. Hún sigraði í einliðaleik kvenna fimmta árið í röð og í tvíliðaleik kvenna ásamt Katrínu Atladóttur annað árið í röð. Þá vann hún sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tvenndarleik þar sem hún lék með Helga Jóhannessyni.

Þegar Ísland sigraði Evrópukeppni B-þjóða sem haldin var í Laugardalshöll í janúar var Ragna einn af burðarásum liðsins. Hún sigraði alla einliðaleiki sína á mótinu og alla tvíliðaleiki nema einn.

Þrátt fyrir að lenda í því mikla áfalli að slíta krossband um mitt ár hefur Ragna tekið þátt í átján alþjóðlegum mótum víðsvegar um heiminn á árinu 2007. Ótrúlegur dugnaður hennar og eljusemi við æfingar hefur skilað miklum árangri og gert henni kleift að æfa og spila af fullum krafti þrátt fyrir meiðslin.

Ragna vann tvö alþjóðleg mót á árinu í einliðaleik kvenna, Iceland Express International og Opna Ungverska badmintonmótið. Þá varð hún í öðru sæti á Victorian International í Ástralíu og Hellas Victor International í Grikklandi ásamt því að hún komst í undanúrslit á tveimur öðrum alþjóðlegum mótum. Í tvíliðaleik kvenna sigraði hún á Iceland Express International ásamt Katrínu Atladóttur og varð í öðru sæti á alþjóðlegu móti á Kýpur ásamt Kati Tolmoff frá Eistlandi.

Á árinu 2007 komst Ragna hæðst í þrítugasta og sjöunda sæti Heimslistans og fjórtánda sæti Evrópulistans. Miðað við stöðu hennar á Heimslistanum í dag er líklegt að hún nái að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári. Samkvæmt nýjustu spá Badmintonsambands Evrópu eru einnig miklar líkur á því að hún nái að tryggja sér Ólympísæti. Það kemur þó ekki endanlega í ljós fyrr en 1.maí 2008.

Ragna er frábær íþróttakona og er einstaklega ánægjulegt fyrir badmintonfólk á Íslandi að hafa hana sem andlit íþróttarinnar útávið. Hún kemur allstaðar vel fyrir og er góð fyrirmynd yngri kynslóðarinnar innan vallar sem utan. Ragna hvorki reykir né notar áfengi og æfingasókn hennar og jákvæðni á æfingum er til mikillar fyrirmyndar.

Skrifað 28. desember, 2007
ALS