Æfingar og fyrirlestur Peter Gade

Peter Gade, einn fremsti badmintonspilari heims, er einn fyrirlesara á RIG ráðstefnunni á morgun, miðvikudag. Fyrirlestur hans verður í spurningaformi en þar er fjallað um hvernig er að vera afreksmaður, hvað þarf að gera til að ná langt og halda sér á toppnum.

Gade hefur verið besti danski badmintonspilarinn um árabil en lagði spaðann á hilluna í lok árs 2012. Hann hefur á ferli sínum unnið 22 Grand Prix mót og orðið fimm sinnum Evrópumeistari. Hann keppti á Ólympíuleikum árin 2000, 2004, 2008 og 2012. Að auki hefur hann unnið til fimm verðlauna á heimsmeistaramótum og orðið danskur meistari 10 sinnum. Hann var valinn Badmintonspilari ársins 1998 af Alþjóða badmintonsambandinu.

 

Peter Gade

 

Gade verður með æfingu fyrir U19 og U17 ára landsliðshópa á miðvikudagskvöldið frá klukkan 21:20-23:00 í TBR. Sú æfing er fyrir fjórar stúlkur og fjóra pilta í hópi U19 en fimm telpur og fimm drengi í hópi U17. Hóp U19 skipa Eiður Ísak Broddason TBR, Daníel Jóhannesson TBR, Helgi Grétar Gunnarsson ÍA, Sigurður Sverrir Gunnarsson TBR, Margrét Finnbogadóttir TBR, Margrét Jóhannsdóttir TBR, Sara Högnadóttir TBR og Sigríður Árnadóttir TBR. Hóp U17 skipa Davíð Bjarni Björnsson TBR, Davíð Phuong TBR, Kristófer Darri Finnsson TBR, Pálmi Guðfinnsson TBR, Vignir Haraldsson TBR, Alda Jónsdóttir TBR, Arna Karen Jóhannsdóttir, TBR, Harpa Hilmisdóttir UMFS, Margrét Nilsdóttir og Margrét Dís Stefánsdóttir TBR. Æfingin er opin öllum sem vilja fylgjast með.

Þá mun hann einnig vera með fræðslu fyrir þjálfara á fimmtudagsmorguninn klukkan 8-10. Sú æfing er opin öllum badmintonþjálfurum.

Skrifað 21. janúar, 2014
mg