Ragna á batavegi

Alþjóðlega badmintonmótið Hellas Victor International fór fram í Thessaloniki í síðustu viku. Eins og kunnugt er stóð Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir sig mjög vel á mótinu og komst alla leið í úrslit. Hún þurfti því miður að gefa úrslitaleikinn vegna meiðsla í fæti.

Sem betur fer var hér ekki um að ræða krossbandaslitið sem hún hefur átt við að stríða heldur álagsmeiðsli í hæl sem hafa verið þrálát hjá henni að undanförnu. Ragna hefur nú hvílt sig yfir jólahátíðina og er mikið að lagast í hælnum. Hún mun halda áfram að fá meðferð hjá sjúkraþjálfurum sínum og verður vonandi orðin klár í slaginn aftur á nýju ári.

Stefnan hjá Rögnu er tekin á Super Series mótið Proton Malaysia Open sem fram fer í Kuala Lumpur 15.-20.janúar og Swedish International sem fram fer í Stokkhólmi 24.-27.janúar. Vonandi að hælmeiðslin stoppi ekki þátttöku hennar í þessum mótum.

Skrifađ 27. desember, 2007
ALS