Úrslit Meistaramóts TBR

Sjötta mót Dominosmótaraðar BSÍ, Meistaramót TBR 2014, var um helgina. Keppt var í öllum greinum í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki.

Í meistaraflokki stóð Íslandsmeistarinn og badmintonmaður ársins 2013, Kári Gunnarsson TBR, uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið Atla Jóhannesson TBR eftir oddalotu í úrslitum í einliðaleik karla 21-10, 16-21 og 21-14.

Tvíliðaleikinn unnu Magnús Ingi Helgason og Einar Óskarsson TBR er þeir unnu í úrslitum Birki Stein Erlingsson og Róbert Þór Henn TBR 21-16 og 21-18.

Tvenndarleikinn unnu Magnús Ingi og Tinna Helgabörn eftir sigur á Daníel Thomsen og Margréti Jóhannsdóttur TBR í úrslitum 21-15 og 21-19.

Einliðaleik kvenna sigraði Tinna Helgadóttir TBR en hún vann í úrslitum Margréti Jóhannsdóttur TBR eftir oddalotu 21-13, 16-21 og 21-16.

Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Erla Björg Hafsteinsdóttir BH og Tinna Helgadóttir TBR er þær lögðu að velli Íslandsmeistarana Elínu Þóru Elíasdóttur og Rakel Jóhannesdóttur TBR í úrslitum 21-14 og 21-14.

Í A-flokki sigraði Snorri Tómason TBR í einliðaleik karla. Hann vann í úrslitum Þorkel Inga Eriksson TBR 21-19 og 21-14.

Einliðaleik kvenna vann Jóna Kristín Hjartardóttir TBR en keppt var í riðli í flokkum. Jóna vann alla þrjá leiki sína.

Tvíliðaleik karla unnu Andrés Andrésson og Sigurjón Jóhannsson TBR en þeir unnu í úrslitaleiknum Sigurð Inga Pálsson og Þorvald Einarsson TBR eftir oddalotu 21-16, 15-21 og 21-18.

Guðríður Gísladóttir og Sigrún Einarsdóttir TBR unnu tvíliðaleik kvenna eftir úrslitaleik gegna Öldu Jónsdóttur og Margréti Nilsdóttur sem lauk eftir oddalotu með sigri Guðríðar og Sigrúnar 12-21, 21-18 og 21-14.

Tvenndarleikinn unnu Egill Sigurðsson og Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir TBR eftir sigur á Snorra Tómassyni og Jónu Kristínu Hjartardóttur TBR í úrslitum 21-16 og 21-16.

Róbert Ingi Huldarsson BH sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en hann vann í úrslitum Steinar Braga Gunnarsson ÍA 23-21 og 21-17.

Margrét Dís Stefánsdóttir TBR sigraði einliðaleik kvenna í B-flokki en hún vann í úrslitum Ingibjörgu Sóleyju Einarsdóttur BH 21-18 og 21-14.

Tvíliðaleik karla unnu Andri Árnason TBR og Steinar Bragi Gunnarsson ÍA en þeir unnu í úrslitaleiknum Gunnar Örn Ingólfsson og Steinþór Hilmarsson TBR 21-18 og 21-8.

Tvíliðaleik kvenna unnu mæðgurnar Margrét Dís Stefánsdóttir TBR og Svanfríður Oddgeirsdóttir Aftureldingu en þær unnu í úrslitum Eyrúnu Björgu Guðjónsdóttur og Ingibjörgu Sóleyju Einarsdóttur BH 21-18 og 21-9.

Tvenndarleikinn unnu Andri Árnason og Margrét Dís Stefánsdóttir TBR en þau unnu Jón Sólmundsson og Önnu Ósk Óskarsdóttur BH í úrslitum eftir æsispennandi leik sem lauk eftir oddalotu 22-20, 19-21 og 21-19.

Margrét Dís vann því þrefalt á mótinu.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Meistaramóti TBR.

Næsta mót á Dominosmótaröð BSÍ er Reykjavíkurmót fullorðinna 7. - 9. febrúar 2014.

Skrifað 5. janúar, 2014
mg