Ragna á topp 10

Samtök íþróttafréttamanna gáfu út í morgun lista yfir þá íþróttamenn sem eru á topp 10 yfir íþróttamenn ársins 2007. Íslandsmeistarinn í badminton, Ragna Ingólfsdóttir, er á meðal tíu efstu í kjörinu.

Aðrir á topp 10 eru Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður í Gummersbach, Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá Lottomatica Roma, Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona úr Val, Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Ciudad Real, Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona úr KR, Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleikmaður hjá GOG og Örn Arnarson, sundmaður úr SH.

Einn þessara tíu íþróttamanna verður kjörin íþróttamaður ársins föstudaginn 28.desember næstkomandi. Sýnt verður frá kjörinu í beinni útsendingu hjá RÚV og Sýn kl. 19.35.

Ragna á svo sannarlega skilið að vera á topp 10 listanum enda hefur árangur hennar á árinu verið frábær. Ragna náði þeim frábæra árangri á árinu að verða þrefaldur Íslandsmeistari í badminton en hún er sjötta konan í sögu badmintoníþróttarinn á Íslandi sem nær þeim árangri. Hún sigraði í einliðaleik kvenna fimmta árið í röð og í tvíliðaleik kvenna ásamt Katrínu Atladóttur annað árið í röð. Þá vann hún sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tvenndarleik þar sem hún lék með Helga Jóhannessyni.

Þegar Ísland sigraði Evrópukeppni B-þjóða sem haldin var í Laugardalshöll í janúar var Ragna einn af burðarásum liðsins. Hún sigraði alla einliðaleiki sína á mótinu og alla tvíliðaleiki nema einn.

Þrátt fyrir að lenda í því mikla áfalli að slíta krossband um mitt ár hefur Ragna tekið þátt í átján alþjóðlegum mótum víðsvegar um heiminn á árinu 2007. Ótrúlegur dugnaður hennar og eljusemi við æfingar hefur skilað miklum árangri og gert henni kleift að æfa og spila af fullum krafti þrátt fyrir meiðslin.

Ragna vann tvö alþjóðleg mót á árinu í einliðaleik kvenna, Iceland Express International og Opna Ungverska badmintonmótið. Þá varð hún í öðru sæti á Victorian International í Ástralíu og Hellas Victor International í Grikklandi ásamt því að komast í undanúrslit á tveimur öðrum alþjóðlegum mótum. Í tvíliðaleik kvenna sigraði hún á Iceland Express International ásamt Katrínu Atladóttur og varð í öðru sæti á alþjóðlegu móti á Kýpur ásamt Kati Tolmoff frá Eistlandi.

Á árinu 2007 komst Ragna hæðst í þrítugasta og sjöunda sæti Heimslistans og fjórtánda sæti Evrópulistans. Miðað við stöðu hennar á Heimslistanum í dag er líklegt að hún nái að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári. Samkvæmt nýjustu spá Badmintonsambands Evrópu eru einnig miklar líkur á því að hún nái að tryggja sér Ólympísæti. Það kemur þó ekki endanlega í ljós fyrr en 1.maí 2008.

Það verður spennandi að sjá hver verður kosinn Íþróttamaður ársins 2007. Ragna Ingólfsdóttir er sannarlega frábær fulltrúi badmintonhreyfingarinnar í kjörinu. 

Skrifađ 24. desember, 2007
ALS