Badminton í 14.sćti á íţróttasíđum dagblađanna

Í hádeginu í dag fór fram fyrirlestur í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal á vegum ÍSÍ þar sem Anna Guðrún Steindórsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á magni íþróttafrétta í dagblöðum. Fyrirlesturinn var mjög athyglisverður en þar kom fram að rúmlega 93% allra íþróttafrétta fjalla aðeins um fjórar íþróttagreinar hin sjö prósentin skiptast niður á 30 aðrar greinar. Ekki óvænt er það knattspyrnan sem trónir á toppnum í umfjöllun dagblaðanna með 53% af allri íþróttaumfjöllun, því næst kemur handknattleikur með 27%, körfuknattleikur með tæp 8% og golf með 5%.

Í efstu 20 sætunum voru eftirfarandi íþróttagreinar:

 1. Knattspyrna 53,26%
 2. Handknattleikur 27,29%
 3. Körfuknattleikur 7,75%
 4. Golf 5,08%
 5. Frjálsíþróttir 1,05%
 6. Skíðaíþróttir 1,00%
 7. Hestaíþróttir 0,75%
 8. Akstursíþróttir 0,67%
 9. Sund 0,61%
 10. Tennis 0,54%
 11. Fimleikar 0,45%
 12. Blak 0,29%
 13. Íshokkí 0,17%
 14. Badminton 0,15%
 15. Almenningsíþróttir 0,12%
 16. Borðtennis 0,11%
 17. Hjólreiðar 0,10%
 18. Hnefaleikar 0,10%
 19. Amerískur fótbolti 0,09%
 20. Íþróttir fatlaðra 0,09%

Í rannsókninni voru öll blöð Morgunblaðsins og Fréttablaðsins árið 2006 tekin fyrir. Texti allra greina var mældur í dálksentimetrum og hann síðan flokkaður eftir íþróttagrein, kyni og innlendri eða erlendri umfjöllun. Fyrirsagnir og myndir voru ekki teknar með í mælingarnar.

Badminton var í 14.sæti yfir magn íþróttafrétta á íþróttasíðum dagblaðanna í þessari könnun og var badmintonið ein af fáum íþróttagreinum þar sem umfjöllun um bæði kyn var tiltölulega jöfn. Í flestum öðrum greinum var umfjöllun um karla mun meiri en konur. Í heildina séð var umfjöllun um karla 87% af heildarumfjöllun, umfjöllun um konur 10% og um bæði kyn 3%.

Ljóst er að staða badmintoníþróttarinnar er alls ekki nógu góð á þessum lista sérstaklega í ljósi þess að íþróttagreinin er í 7.sæti yfir fjölmennustu íþróttagreinar á landinu. Hluti af skýringunni er af öllum líkindum sú að hápunktar badmintoníþróttarinnar á Íslandi eru tiltölulega fáir miðað við margar greinar og hugsanlega höfum við í hreyfingunni ekki verið nógu dugleg að koma upplýsingum um okkar grein á framfæri. Nú er um að gera að spýta í lófana, vera dugleg að skrifa fréttatilkynningar eftir mót og uppfæra reglulega heimasíður.

Nánari upplýsingar um fyrirlestur Önnu Guðrúnar verða settar inná heimasíðu ÍSÍ fljótlega og þar verður einnig hægt að horfa á video upptöku af honum.

Skrifađ 28. september, 2007
ALS