Ragna komin í úrslit í Grikklandi

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er komin í úrslit á alþjóðlega badmintonmótinu Hellas Victor International.

Hún sigraði í morgun Nhung Le frá Víetnam í hörku leik. Fyrstu lotuna sigraði Ragna 24-22 en þá næstu sigraði Nhung 21-13. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar sigraði Ragna 21-17.

Glæsilegur árangur hjá Rögnu sem nú er komin í úrslit á alþjóðlegu móti í fjórða skiptið á þessu ári. Úrslitaleikurinn fer fram á morgun laugardag en þar mætir Ragna Petyu Nedelchevu frá Búlgaríu. Petya er geysisterkur leikmaður en hún hefur gjörsigrað alla andstæðinga sína á mótinu hingað til. Stúlkurnar sem hafa mætt henni í Grikklandi hafa mest fengið níu stig gegn henni í hverri lotu sem verða að teljast ótrúlegir yfirburðir. Petya er númer 11 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins en Ragna er númer 55. Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga hjá Rögnu á morgun.

Smellið hér til að fylgjast með Hellas Victor International.

Skrifađ 21. desember, 2007
ALS