Vel heppna­ Ý■rˇttakennaranßmskei­ ß Su­urlandi

Badmintonsambandið hélt námskeið fyrir íþróttakennara á Suðurlandi föstudaginn 4. október síðastliðinn. Alls tóku 22 kennarar frá 11 skólum á Suðurlandi þátt en námskeiðið fór fram á Hvolsvelli í tengslum við Haustþing Kennarafélags Suðurlands. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Anna Lilja Sigurðardóttir.

Markmiðið með námskeiðinu var að kynna kennurum ýmsar leiðir til að kenna badminton á skemmtilegan hátt í bæði litlum og stórum hópum við mismunandi aðstæður. Stuðst var við kennsluefni frá Alþjóða Badmintonsambandinu sem útbúið hefur verið í tengslum við þróunarverkefnið Shuttle Time. Þróunarverkefnið hefur það að markmiði að auka badmintonkennslu í grunnskólum um allan heim.

 

Íþróttakennaranámskeið á Hvolsvelli

 

Þátttakendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og sögðu í nafnlausu námskeiðsmati sem lagt var fyrir í lokin að það ætti eftir að nýtast þeim vel í kennslu. Á meðal skriflegra ummæla frá þátttakendum voru: "Vel gert og fagmannlegt námskeið", "Takk fyrir gott námskeið" og "Þetta var mjög skemmtilegt".

 

Íþróttakennaranámskeið á Hvolsvelli

 

Þetta var þriðja námskeiðið sem Badmintonsambandið heldur fyrir íþróttakennara um Shuttle time verkefnið en hin voru haldin í Reykjavík í ágúst 2012 og á Akureyri í ágúst 2013. Stefnt er að því að halda tvö námskeið á næsta ári og þá í nýjum landshlutum til að ná til sem flestra.

Skrifa­ 23. oktober, 2013
mg