Ragna komin í undanúrslit í Grikklandi

Ragna Ingólfsdóttir var rétt í þessu að tryggja sér sæti í undanúrslitum alþjóðlega badmintonmótsins Hellas Victor International. Ragna sigraði nokkuð örugglega í átta liða úrslitum þýsku stúlkuna Karin Schnaase 21-10 og 21-13.

Í undanúrslitum sem fara fram á morgun föstudag mætir Ragna Nhung Le frá Víetnam. Nhung komst nokkuð óvænt í undanúrslitin en búist var við því að ítalska stúlkan Agnese Allegrini myndi komast þangað í hennar stað.

Nhung er númer 93 á heimslistanum og telst því Ragna sigurstranglegri í viðureigninni því hún er númer 55 á sama lista. Ekki er vitað til þess að þær hafi mæst áður í alþjóðlegri keppni. Þegar mótaúrslit Nhung eru skoðuð má sjá að hún hefur náð ágætis árangri í alþjóðlegum mótum. Hún varð meðal annars í 2.sæti á sterku móti í Nýja Sjálandi síðastliðið sumar en á sama móti beið Ragna lægri hlut í átta liða úrslitum.

Smellið hér til að skoða úrslit frá Hellas Victor International.

Skrifað 20. desember, 2007
ALS