Skólabadmintonnámskeið á Akureyri

Fimmtudaginn 15.ágúst síðastliðinn stóð Badmintonsambandið fyrir skólabadmintonnámskeiði á Akureyri í samvinnu við íþróttakennarafélag Akureyrar. Kennarar á námskeiðinu voru þær Anna Lilja Sigurðardóttir og Irena Ásdís Óskarsdóttir.

Á námskeiðinu voru kennurum kynntir ýmsir leikir, æfingar og spilaform sem hægt er að nota við kennslu badminton í skólum. Þá var farið sérstaklega í gegnum hvernig hægt er að skipuleggja góðan badmintontíma með mörgum nemendum en fáum völlum. Stuðst var við námsefnið Shuttle Time sem gefið er út og þróað af Alþjóða Badmintonsambandinu til eflingar skólabadmintons um allan heim.

Alls tóku 22 kennarar á Norðurlandi þátt í námskeiðinu. Þátttakendur voru mjög ánægðir og töldu að efnið ætti eftir að nýtast þeim vel í kennslu. Á meðal ummæla sem kennarar skrifuðu í könnun að námskeiði loknu voru: "Takk fyrir frábært námskeið. Þetta á eftir að nýtast mér vel.", "Frábært námskeið" og "Flott og gagnlegt námskeið".

Næsta námskeið fyrir íþróttakennara er fyrirhugað Haustþingi Kennarafélags Suðurlands á Hvolsvelli 5.október.

Skrifað 20. ágúst, 2013
mg