Árni Þór velur hópinn í Nordic Camp

Badmintonsambönd Norðurlandanna halda æfingabúðir árlega um árabil sem kallast Nordic Camp. Hverju Norðurlandanna er boðið að senda sex þátttakendur úr aldursflokknum U15 í æfingabúðirnar ár hvert. Einnig er í boði að senda þjálfara á námskeið sem keyrt er samhliða æfingabúðunum.

Í ár verða Nordic Camp æfingabúðirnar í Kristianshavn í Noregi. Landsliðsþjálfarinn Árni Þór Hallgrímsson fékk það erfiða verkefni að velja leikmenn til að taka þátt fyrir Íslands hönd. Fyrir valinu urðu þau Atli Már Eyjólfsson KR, Bjarni Guðmann Jónsson UMF Skallagrími, Jóhannes Orri Ólafsson KR, Símon Orri Jóhannson ÍA, Tómas Andri Jörgensson ÍA og Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir ÍA.

Nordic Camp fer fram dagana 1. - 4. ágúst í sumar. Miðað við upplifun íslensku leikmannanna undanfarin ár á hópurinn von á skemmtilegum æfingabúðum og góðri þjálfun frá færum þjálfurum víðsvegar úr Evrópu.

Irena Rut Jónsdóttir ÍA fer á þjálfaranámskeiðið og verður jafnframt fararstjóri krakkanna í ferðinni.

Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar um Nordic Camp á heimasíðu Badminton Europe.

Skrifað 19. apríl, 2013
mg