Rússlandi vann Ísland 5-0

Evrópukeppni landsliða hófst í Rússlandi í dag. Fyrri leikur íslenska liðsins í riðlinum, gegn heimaþjóðinni, lauk rétt í þessu með sigri Rússanna 5-0.

Fyrsti leikur íslenska liðsins var tvenndarleikur sem Kári Gunnarsson og Snjólaug Jóhannsdóttir spiluðu fyrir hönd Íslands. Keppinautar þeirra voru Ivan Sozonov og Valeria Sosokina. Rússarnir unnu leikinn mjög örugglega 21-8 og 21-5.

Annar leikur íslenska liðsins var einliðaleikur karla sem Atli Jóhannesson spilaði fyrir hönd Íslands. Hann mætti Anatoliy Yartsev sem er okkur kunnugur frá Iceland International 2012 þegar Kári Gunnarsson sló hann úr leik með sigri 21-16 og 21-16 í einliðaleik karla. Yartsev var með yfirhöndina í þessum leik alla fyrri lotuna og vann hana auðveldlega 21-7. Seinni lotan var jöfn framanaf og staðan var t.a.m. 7-7 en þá skoraði Rússinn fjögur í röð og staðan var orðin 11-7 Atla í óhag. Seinni lotunni lauk með sigri Yartsev 21-12. Yartsev er númer 248 á heimslistanum.

Margrét Jóhannsdóttir spilaði einliðaleik kvenna fyrir Íslands hönd gegn Natalia Perminova. Hún keppti einnig á Iceland International og lenti í 3. - 4. sæti í einliðaleik kvenna eftir að hafa tapað fyrir Mei Hui Chiang sem stóð uppi sem sigurvegari. Sara Högnadóttir keppti við hana á Íslandi og tapaði 10-21 og 9-21. Þetta var fyrsti A-landsleikur Margrétar sem er einungis 18 ára. Perminova var með yfirhöndina í leiknum og vann fyrstu lotu 21-12 en Margrét lék mjög vel og rallýin voru löng á köflum. Seinni lotan var jöfn og Margrét var yfir allan fyrri hluta seinni lotunnar og var yfir 13-11 en þá náði sú rússneska yfirhöndinni og vann 21-15. Perminova er númer 107 á heimslistanum.

Tvíliðaleik karla spiluðu Atli Jóhannesson og Kári Gunnarsson gegn Andrej Ashmarin og Vitilij Durkin. Fyrri lotan var jöfn framan af en svo tóku Rússarnir fram úr okkur og unnu hana 21-14. Rússarnir höfðu yfirhöndina alla seinni lotuna og unnu hana 21-14.

Seinasti leikur viðureignar Íslands og Rússlands var tvíliðaleikur kvenna en hann spiluðu Rakel Jóhannesdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir fyrir Íslands hönd og Tatjana Bibik og Anastasia Chervaykova fyrir Rússlands hönd. Þær rússnesku unnu fyrri lotuna örugglega 21-8 og þá seinni 21-10.

Næsti leikur íslenska liðsins er á morgun klukkan 14 að íslenskum tíma en andstæðingur þeirra verður Búlgaría.

Skrifað 12. febrúar, 2013
mg