Ítalska opna hefst í dag

Alþjóðlega badmintonmótið VII Italian International hefst í Róm í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er meðal keppenda í einliðaleik kvenna á mótinu.

Ragna hefur keppni á morgun þriðjudag en í dag mánudag fer fram undankeppni mótsins. Í undankeppninni í einliðaleik kvenna leika 48 stúlkur um sex laus sæti í aðal mótinu en 26 stúlkur komust beint þangað inn. Það er staða á heimslista sem ræður því hvaða leikmenn komast beint inní aðal mótið. Hægt er að nálgast niðurröðun VII Italian International með því að smella hér.

Eins og áður hefur komið fram mætir Ragna Ingólfsdóttir vinkonu sinni Kati Tolmoff frá Eistlandi í fyrstu umferð mótsins. Þær Ragna og Kati hafa ferðast mikið saman undanfarið ár og tóku þátt í tvíliðaleik saman á móti á Kýpur þar sem þær enduðu í öðru sæti. Þær Kati og Ragna eru þó engir vinir á badmintonvellinum en þar hafa þær mæst þrisvar í einliðaleik á alþjóðlegum mótum. Tvisvar hefur Ragna sigrað og einu sinni Kati. Kati er þó ofar á heimslistanum eða númer 48 og Ragna er númer 57. Það má því búast við mjög harðri baráttu hjá þeim stöllum í Róm á morgun.

Skrifađ 11. desember, 2007
ALS