Dregi­ Ý Evrˇpukeppni karla og kvenna li­a

Alls hafa 57 lið skráð sig til keppni á Evrópukeppni karla og kvenna liða sem fram fer í Hollandi 12.-17.febrúar næstkomandi, 30 karla lið og 27 kvenna lið. Sigurvegarar á mótinu verða ekki aðeins Evrópumeistarar landsliða heldur vinna sér einnig þátttökurétt á Heimsmeistaramóti landsliða (Thomas og Uber Cup) sem fram fer í Indónesíu í maí 2008. Niðurröðun keppninnar var birt í dag.

Íslenska kvennalandsliðið leikur í riðli með Þýskalandi, Wales og Ítalíu þar sem þýsku stúlkurnar eru með röðun og fyrirfram taldar sterkastar í riðlinum. Íslenska karlalandsliðið leikur í riðli með Rússlandi, Tyrklandi og Spáni þar sem Rússar eru með röðun og fyrirfram taldir sterkasta lið riðilsins. Keppni fer þannig fram að leiknir eru þrír einliðaleikir og tveir tvíliðaleikir í hverri keppni milli tveggja þjóða. Allir leika við alla í riðlinum en aðeins efsta lið hvers riðils kemst áfram í útsláttarkeppni um Evrópumeistaratitilinn sjálfan.

Möguleikar íslenska kvenna landsliðsins

Þjóðverjar eru klárlega lang besta liðið í riðlinum hjá íslensku stelpunum og munu án efa standa undir röðun sinni og sigra riðilinn. Þýska kvennaliðið varð í 3.sæti í síðustu keppni sem haldin var fyrir tveimur árum í Grikklandi. Þeirra sterkasta einliðaleiks kona Huaiwen Xu sem er af kínverskum ættum er númer 7 á heimslistanum um þessar mundir og sú næst sterkasta Juliane Schenk er númer 17 á listanum. Í tvíliðaleik kvenna standa Þjóðverjar ekki síður vel en þeir eiga tvö pör á topp fimmtíu í heiminum og fjögur á topp hundrað. Það er því ljóst að það verður engin pressa á íslensku stelpunum gegn þessu eitur sterka liði Þjóðverja.

Leikmenn Wales hafa ekki verið mikið á faraldsfæti undanfarið ár og eru því ekki margir þeirra inná heimslistanum. Þeir sem eru á listanum hafa farið á mjög fá mót og því segir staða þeirra þar lítið um getu þeirra. Það sama má þó segja um íslensku leikmennina sem lítið hafa verið á faraldsfæti fyrir utan Rögnu Ingólfsdóttur. Áætla má því að leikurinn gegn Wales geti orðið mjög jafn og ómögulegt að spá fyrir um úrslit hans. Þess má þó geta að síðast þegar þessi kvennalandslið mættust þá sigraði Ísland 3-2. Sá leikur fór fram á Heimsmeistarakeppni landsliða árið 1988 og er það eina skiptið svo vitað sé að þessi tvö lið hafi mæst áður.

Ítalir eru badmintonþjóð á uppleið sem alltaf eru að koma fram með betri og betri leikmenn. Þeir eiga eina mjög sterka einliðaleiks konu um þessar mundir, Agnese Allegrini, sem er númer 43 á heimslistanum eða 14 sætum ofar en Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir. Þær Agnese og Ragna hafa aldrei mæst í alþjóðlegu móti svo vitað sé til en á pappírunum má þó áætla að sú ítalska sé sterkari. Við skulum þó spyrja að leiks lokum því keppniskonunni Rögnu hefur oftar en ekki tekist að vinna leikmenn sem eru ofar en hún á heimslistanum. Aðrir leikmenn Ítalíu eru óskrifað blað og erfitt að meta getu þeirra. Leikurinn gegn Ítölum verður án efa spennandi og hugsanlegt að leikur Rögnu og Agnese muni ráða úrslitum hans á endanum. Miðað við gang sögunnar verður íslenska liðið í heild sinni þó að teljast sigurstranglegra því íslenska landsliðið hefur aldrei tapað fyrir Ítölum en liðin hafa mæst sjö sinnum í landsleik.

Miðað við ofangreindar upplýsingar um andstæðinga íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í febrúar er harla ólíklegt að liðið sigri riðil sinn. Líkur á öðru eða þriðja sæti í riðlinum eru hinsvegar nokkuð góðar en alls ekki öruggar.

Möguleikar íslenska karlalandsliðsins

Rússneska liðið sem er með röðun í riðli íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu komst ekki áfram úr riðlakeppni síðasta móts sem fram fór í Grikklandi fyrir tveimur árum. Það voru Pólverjar sem sáu til þess að þeir færu ekki áfram. Röðunina í ár fá þeir hinsvegar vegna góðrar stöðu leikmanna sinna á heimslistanum um þessar mundir. Stig þriggja bestu einliðaleiksmanna og tveggja bestu tvíliðaleiks liða hvers lands eru lögð saman og átta efstu þjóðirnar fá röðun. Sterkasti einliðaleiksmaður Rússa, Stanislav Pukhov, er númer 51 á heimslistanum. Þrír aðrir leikmenn þeirra eru á topp 200 á heimslistanum. Rússar eiga mjög sterka tvíliðaleiks menn. Þeirra sterkasta par er númer 21 á heimslistanum og það næst sterkasta númer 91. Miðað við stöðu leikmanna á heimslistanum má búast við því fyrirfram að Rússar sigri riðilinn en þeir þurfa án efa að strögla eitthvað og þá sérstaklega í öðrum og þriðja einliðaleik sem ekki er afgerandi sterkur hjá þeim.

Karlalið Tyrklands er líkt og íslenska liðið nokkuð óskrifað blað en leikmenn beggja liða hafa lítið tekið þátt í alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og eru því mjög neðarlega á heimslistanum. Ísland og Tyrkland hafa aldrei mæst í landsleik og því heldur ekki hægt að spá fyrir um úrslit í leik liðanna út frá sögulegu sjónarhorni. Það eina sem í raun og veru vitað er um Tyrkina er að þeir hafa verið að koma upp með mjög góð unglingalið undanfarin ár og að þeir stóðu sig sérstaklega vel á U17 Evrópumótinu árið 2005. Það verður spennandi að sjá hvernig fer í fyrsta landsleik Tyrklands og Íslands í febrúar.

Spánverjar eiga mjög sterka einliðaleiks stráka en þeirra sterkasti maður, Pablo Abian, er númer 44 á heimslistanum. Þeir eiga tvo aðra leikmenn á topp 100, einn númer 73 og annan númer 91. Miðað við stöðu á heimslista verður því að teljast ólíklegt að íslenska karla landsliðinu takist að sigra í einliðaleikjunum gegn þeim. Tvíliðaleikurinn gæti hinsvegar verið opnari en þar hafa Spánverjarnir lítið verið að taka þátt í alþjóðlegum mótum líkt og Íslendingarnir. Þar sem að leiknir eru þrír einliðaleikir en aðeins tveir tvíliðaleikir verða Spánverjar að teljast sigurstranglegri í landsleiknum á pappírunum. Ísland og Spánn hafa tvisvar áður mæst í keppni karla landsliða en í bæði skiptin hafði íslenska liðið sigur, 5-0 árið 1994 og 3-2 árið 2000. Sagan er því góð fyrir okkar menn.

Miðað við ofangreindar upplýsingar um andstæðinga íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í febrúar eru allar líkur á því að liðið muni bítast um 3.sæti riðilsins við Tyrki. Staðan á pappírunum gengur hinsvegar ekki alltaf eftir og því verður spennandi að fylgjast með keppninni í febrúar.

Nánari upplýsingar um Evrópukeppni landsliða má finná heimsíðu Badmintonsambands Evrópu www.badmintoneurope.com en niðurröðun leikja má nálgast með því að smella hér.

Skrifa­ 6. desember, 2007
ALS