Úrslit í tvenndarleik á Iceland International 2012 - mótinu lokið

Í úrslitum í tvenndarleik léku Helgi Jóhannesson og Elín Þóra Elíasdóttir gegn Chou Tien Chen og Chiang Mei Hui frá Chinese Taipei.

Leikurinn byrjaði fjörlega þó nánast væri jafnt á tölum þá höfðu Helgi og Elín yfirhöndina fram að 13 - 13 en þá komust Chen og Chiang yfir og sigruðu að lokum 21 - 16.

Í annarri lotu tóku Helgi og Elín fyrsta stigið en Chen og Chiang svöruðu með því að taka næstu fimm. Síðan komust Chen og Chiang í 11 - 5 og ljóst að róðurinn í þessari lotu yrði Helga og Elínu erfiður enda slökuðu Chen og Chiang ekkert á tökum sínum á leiknum komust í 15 - 6, 17 - 7, 19 - 7 og unnu síðan 21 - 9.

Chou Tien Chen og Chiang Mei Hui frá Chinese Taipei unnu því tvenndarleikinn á Iceland International og þar með urðu þau tvöfaldir meistarar því áður höfðu þau unnið einliðaleik karla og kvenna á mótinu.

Með úrslitaleiknum í tvenndarleik lauk mótinu sem tókst mjög vel en mjög góð stemming var allt mótið og þökkum við þeim fjölmörgu áhorfendum sem komu á mótið kærlega fyrir komuna.

Hægt verður að nálgast endursýningu á úrslitaleikjunum á www.sporttv.is

Skrifað 11. nóvember, 2012
mg