ÓL - Evrópubúar áttu ekki góðan dag

Einu Evrópubúarnir sem eiga enn möguleika á gulli í badmintonkeppninni á Ólympíuleikunum eru Danirnir Mathias Boe og Carsten Mogensen í tvíliðaleik karla. Þeim var raðað númer þrjú inn í greinina og leika í undanúrslitum laugardaginn 4. ágúst gegn Jae Sung Jung og Yong Dae Lee frá Kóreu. Þá mætast einnig Yun Cai og Haufeng Fu frá Kína og Kien Keat Koop og Boon Heong Tan frá Malasíu. Á sunnudaginn ráðast úrslitin í tvíliðaleik karla.

Í öðrum greinum duttu Evrópubúar út úr keppni í dag. Peter Gade tapaði fyrir Long Chen frá Kína 16-21 og 13-21 og Tine Baun tapaði fyrir Saina Nehwal frá Indlandi 15-21 og 20-22. Í einliðaleik verða undanúrslitin spiluð á morgun. Í karlaflokki bítast á annars vegar Chong Wei Lee frá Malsíu, sem er raðað númer eitt og Long Chen frá Kína, sem er raðað númer þrjú og hins vegar Dan Lee frá Kína, sem er raðað númer tvö, og Hyun Il Lee frá Kóreu, sem er raðað númer sjö. Í kvennaflokki mætast annars vegar Yihan Wang frá Kína, sem er raðað númer eitt, og Saina Nehwal frá Indlandi, sem er raðað númer fjögur, og hins vegar Xin Wang frá Kína, sem er raðað númer tvö, og Xuerui Li frá Kína, sem er raðað númer þrjú.

Úrslitaleikurinn í tvíliðaleik kvenna fer fram á laugardaginn og þá verður einnig spilað um bronsið. Qing Tian og Yunlei Zhao frá Kína keppa við Mizuki Fujii og Reika Kakiiwa frá Japan um gullið. Um bronsið spila Valeri Sorokina og Nina Vislova frá Rússlandi og Alex Bruce og Michelle Li frá Kanada.

Á morgun fer fram úrslitaleikurinn í tvenndarleik og þá verður einnig leikið um bronsið. Til úrslita leika Nan Zhang og Yunlei Zhao frá Kína og Chen Xu og Jin Ma frá Kína. Yunlei Zhao spilar því um gullið í tveimur greinum,í tvenndarleik og í tvíliðaleik kvenna. Danir gætu farið heim með brons því Joachim Fischer og Christinna Pedersen spila gegn Tontowi Ahman og Liliyana Natsir frá Indónesíu.

Smellið hér til að sjá úrslit dagsins.

Skrifað 2. ágúst, 2012
mg