ÓL - Óíþróttamannsleg hegðun

Sú ákvörðun að notast við riðlakeppni í badmintoni á Ólympíuleikunum í London í stað útsláttarkeppni frá byrjun hefur heldur betur snúist í höndunum á skipuleggjendum. Þetta sýndi sig í tvíliðaleik kvenna í gær þar sem fjögur pör sem höfðu tryggt sér sæti í átta para úrslitum gerðu sig sek um afar óíþróttamannslega framkomu.

Keppt er í fjórum riðlum í tvíliðaleik og komast tvö pör upp úr hverjum riðli. Vegna óvæntra úrslita í D-riðli, þar sem þær Tian Qing og Zhao Yunlei frá Kína, næstefsta par heimslistans, töpuðu fyrir dönsku pari, kom upp sú staða að pörin sem börðust um efsta sæti A-riðils vildu frekar lenda í 2. sæti svo þau gætu ekki mætt þessu næstbesta pari heims fyrr en í úrslitaleiknum.

Pörin sem börðust um efsta sæti A-riðils, Wang Xiaoli og Yu Yang frá Kína annars vegar og hins vegar Jung Kyung-eun og Kim Ha-na frá Suður-Kóreu, reyndu bæði að tapa innbyrðis viðureign sinni í gær en hún endaði með því að þær suðurkóresku unnu.

Ekki var öllu lokið því að annað suðurkóreskt par, skipað Ha Jung-eun og Kim Min-jung, reyndi svo að tapa gegn indónesísku pari í C-riðli til þess að þurfa ekki að mæta fyrrnefndu næstbesta pari heims strax í fjórðungsúrslitunum. Viðureign þessara para fór fram á undan leik Rögnu Ingólfsdóttur við Jie Yao í gærkvöldi og tafðist sá leikur um 75 mínútur vegna lítils áhuga paranna á að vinna. Þær suðurkóresku unnu á endanum og mæta því næstbesta pari heims í dag.

Pörin fjögur sem um er að ræða hafa öll verið kærð af alþjóðabadmintonsambandinu fyrir að „reyna ekki sitt besta til að vinna leik" og „hegða sér með hætti sem smánar íþróttina".

Skrifað 1. ágúst, 2012
mg