Ragna dottin úr keppni í Wales

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir beið lægri hlut gegn ensku stúlkunni Helen Davies á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Welsh International sem fram fer í Cardiff nú um helgina. Helen sigraði 21-18 og 21-9.

Mótaþátttaka Rögnu hefur verið mjög þétt að undanförnu og í raun og veru hlaut að koma að því að hún myndi eiga dag þar sem að allir hlutir gengju ekki upp. Samkvæmt æfingaáætlunum var markmiðið hjá Rögnu að toppa á Iceland Express International sem svo sannarlega tókst. Því er ekki óeðliegt að það komi þungir dagar í kjölfarið. Jónas Huang þjálfari Rögnu sagði hana hafa verið svoldið þreytta í leiknum ásamt því að frekar heitt var í höllinni sem hentaði Rögnu illa. Hann sagði einnig að hin enska Helen hefði spilað mjög vel og væri góður leikmaður. Englendingar eru mjög sterk badmintonþjóð og því ekki óeðlilegt að þeir séu að koma upp með mjög vel spilandi leikmenn sem ekki eru þó enn komnir inná heimslistann.

Ragna heldur þó að sjálfsögðu áfram í baráttu sinni við að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Næsta mót Rögnu er Italian International sem fram fer í Róm 11.-14.desember næstkomandi.

Smellið hér til að skoða nánar um úrslit Yonex Welsh International.

Skrifað 30. nóvember, 2007
ALS