18 dagar í Ólympíuleika

Það styttist óðum í hina miklu og mögnuðu íþróttahátíð Ólympíuleikana, sem hefjast í London á Englandi nú í lok júlí. Badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir mun keppa á leikunum fyrir Íslands hönd ásamt íþróttafólki úr frjálsum íþróttum, handknattleik, júdó, skotfimi og sundi. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur veg og vanda að undirbúningi og skipulagi ferðar íþróttafólksins til London og má vægast sagt segja að hjá þeim sé í mörg horn að líta. Opnunarhátíð leikanna fer fram föstudaginn 27. júlí.

 

Ragna Ingólfsdóttir hlýtur styrk úr Ólympíusamhjálpinni

 

Ragna keppir í einliðaleik kvenna á Ólympíuleikunum en alls munu 48 konur keppa um Ólympíumeistaratitilinn í greininni. Keppnisfyrirkomulagið er riðlakeppni þar sem keppni hefst í 16 þriggja keppenda riðlum, en einhverjir riðlar geta verið með tveimur eða fjórum keppendum. Sigurvegarar hvers riðils halda síðan áfram í útsláttarkeppni þegar keppni í riðlum lýkur. Fyrsti keppnisdagur er 28. júlí sem er jafnframt fyrsti keppnisdagur leikanna. Útsláttarkeppnin hefst 1. ágúst, 8 manna úrslit 2. ágúst og 3. ágúst eru undanúrslit í einliðaleik kvenna. Úrslitleikurinn ásamt brosleiknum fer fram 4. ágúst í einliðaleik kvenna en daginn eftir í einliðaleik karla.

Draga á í badmintonkeppnina mánudaginn 23. júlí, sama dag og Ragna heldur til London. Smellið hér til að finna lista yfir þátttakendur í badminton á Ólympíuleikunum.

Badmintonkeppnin fer fram á Wembley í London en það er töluvert frá Ólympíuþorpinu eða alveg í hinum enda borgarinnar. Fyrst var keppt í badminton á Ólympíuleikum árið 1992, þá í Barcelona. Þá kepptu fyrir Íslands hönd Elsa Nielsen, Broddi Kristjánsson og Árni Þór Hallgrímsson. Elsa keppti einnig í Atlanta árið 1996 og Ragna í Peking árið 2008.

Árni Þór Hallgrímsson, Elsa Nielsen og Broddi Kristjánsson

Íþróttamennirnir 172 sem taka þátt í badmintonkeppni Ólympíuleikanna koma frá yfir 50 löndum víðsvegar um heiminn. Flestir keppendur koma frá Kína. Danir verða fjölmennastir Evrópuþjóða.

Skrifađ 9. júlí, 2012
mg