Englendingarnir sigruðu Magnús og Tinnu

Alþjóðlega badmintonmótið Yonex Welsh International fer fram í Cardiff þessa dagana. Magnús Ingi og Tinna Helgabörn komust í aðra umferð mótsins með sigri á Sam Magee og Sara Theodorsson í morgun. Í hádeginu léku þau svo í annari umferð gegn Heather Olver og Matthew Honey frá Englandi. Englendingarnir sigruðu 21-12 og 21-12 en þau eru fyrirfram talin líkleg til að komast alla leið í úrslit á mótinu. Það má því segja að leikurinn hafi farið eftir bókinni.

Síðar í dag eða kl. 16.00 hefur Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir keppni á mótinu en þá mætir hún ensku stúlkunni Helen Davies. Ragna er með aðra röðun í einliðaleik kvenna og því talin sigurstranglegri í þeirri viðureign. Aðeins Englendingurinn Jill Pittard er talin sigurstranglegri en Ragna í mótinu en hún er tveimur sætum ofar á heimslistanum. Þrátt fyrir að Ragna sé fyrirfram talin líkleg til að komast alla leið í úrslitin er leiðin þangað löng og ströng því með Rögnu á væng eru mjög góðir leikmenn m.a. sterk stelpa frá Perú og önnur mjög öflug frá Nýja Sjálandi. Það verður spennandi að sjá hvort að henni takist að fylgja eftir velgengni sinni á mótum fyrr í mánuðinum.

Hægt er að skoða öll úrslit mótsins með því að smella hér. 

Skrifað 30. nóvember, 2007
ALS