Árni Þór velur þátttakendur í Nordic Camp æfingabúðirnar

Badmintonsambönd Norðurlandanna halda æfingabúðir árlega um árabil sem kallast Nordic Camp. Hverju Norðurlandanna er boðið að senda þrjár stúlkur og þrjá stráka úr aldursflokknum U15 í æfingabúðirnar ár hvert. Einnig er í boði að senda þjálfara á námskeið sem keyrt er samhliða æfingabúðunum.

Í ár verða Nordic Camp æfingabúðirnar í Fredriksberg í Danmörku. Landsliðsþjálfarinn Árni Þór Hallgrímsson fékk það erfiða verkefni að velja leikmenn til að taka þátt fyrir Íslands hönd. Fyrir valinu urðu þau Alexander Örn Kárason ÍA, Davíð Bjarni Björnsson TBR, Haukur Gíslason Samherjum, Alda Karen Jónsdóttir TBR, Harpa Hilmisdóttir UMF Skallagrími og Margrét Dís Stefánsdóttir Aftureldingu.

Nordic Camp fer fram dagana 1. - 5. ágúst í sumar. Miðað við upplifun íslensku leikmannanna undanfarin ár á hópurinn von á skemmtilegum æfingabúðum og góðri þjálfun frá færum þjálfurum víðsvegar úr Evrópu.

Þjálfarinn Ivan Falck-Petersen fer á þjálfaranámskeiðið og verður jafnframt fararstjóri krakkanna í ferðinni.

Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar um Nordic Camp á heimasíðu Badminton Europe.

Skrifað 24. apríl, 2012
mg