Magnús Ingi og Tinna sigruðu í tvenndarleik

Systkynin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn sigruðu andstæðinga sína í fyrstu umferð í tvenndarleik á alþjóðlega mótinu Yonex Welsh International sem fram fer í Cardiff þessa dagana.

Þau léku gegn Sam Magee frá Írlandi og Sara Theodorsson frá Svíþjóð og sigruðu í tveimur lotum 21-18 og 21-15. Í annari umferð sem hefst kl. 12.00 í dag mæta þau ensku pari Heather Olver og Matthew Honey. Þau Heather og Matthew eru með aðra röðun í tvenndarleiknum og því talið líklegt að þau komist alla leið í úrslit mótsins. Það verður því við ramman reip að draga hjá þeim Magnúsi og Tinnu í annari umferðinni.

Síðar í dag eða kl. 16.00 hefur Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir keppni á mótinu en þá mætir hún ensku stúlkunni Helen Davies. Ragna er með aðra röðun í einliðaleik kvenna og því talin sigurstranglegri í þeirri viðureign.

Hægt er að skoða öll úrslit mótsins með því að smella hér.

Skrifað 30. nóvember, 2007
ALS