Sigríður Bjarnadóttir, fyrrverandi formaður Badmintonsambandsins, valin í evrópsku konunefndina í annað sinn

Árið 2010 var sett á fót innan Badminton Europe(BE) nefnd, European Women in Badminton, sem hefur það hlutverk að efla þátttöku kvenna innan badmintoníþróttarinnar og þá sérstaklega með áherslu á þátttöku kvenna utan vallar t.a.m. stjórnar- og nefndarstörf, þjálfara- og dómarastörf og fleira. Hópurinn hittist aðeins einu sinni í París árið 2010 og var sá fundur mjög góður. Vinna nefndarinnar hefur nú leitt til þess að BE hefur samþykkt að veita 2 viðurkenningar árlega til kvenna sem þykja hafa skarað fram úr á árinu og fyrir starf innan badmintonhreyfingarinnar í gegnum árin og verða fyrstu viðurkenningarnar afhentar samhliða ársþingi BE sem fer fram í Karlskrona 21. apríl næstkomandi.

Nefndin var upphaflega skipuð 12 konum vítt og breytt úr Evrópu ásamt fulltrúum úr stjórn BE en með allan þennan fjölda reyndist erfitt að blása til funda sökum kostnaðar og eins var erfitt að ná saman öllum hópnum og því var ákveðið að óska eftir nýjum tilnefningum í nefndina og fækka niður í 6 nefndarkonur. Margar tilnefningar bárust og fyrir páska var hópurinn tilkynntur og var Sigríður meðal nefndarkvenna sem valin var til áframhaldandi starfa.

Þess má geta að Sigríður fór á vegum BE fyrir hönd Evrópskra kvenna til Qingdao í Kína á síðasta ári þar sem Alþjóða Badmintonsambandið hélt sitt fyrsta Konumálþing, Women in Badminton, samhliða ársþingi sínu. Þar var hún með framsögu um stöðu badmintonkvenna í Evrópu.

Badmintonsambandið óskar Sigríði til hamingju með þennan áfanga.

Skrifað 12. apríl, 2012
mg