Tinna hársbreidd frá sigri

Tinna Helgadóttir var hársbreidd frá því að sigra andstæðing sinn á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Welsh International sem fram fer í Cardiff þessa dagana. Tinna mætti ensku stúlkunni Rebecca Pantaney í undankeppni mótsins sem fram fór í dag. Tinna vann fyrstu lotuna 21-16 en beið síðan lægri hlut 22-24 í þeirri næstu. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var æsispennandi og tapaði Tinna naumlega 20-22. Leikur Tinnu og Rebeccu var lengsti leikur dagsins og stóð yfir í 47 mínútur.

Tinna hefur þó ekki lokið keppni á mótinu í Wales því á morgun föstudag keppir hún ásamt Magnúsi Inga bróður sínum í tvenndarleik. Á morgun keppir einnig Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir á mótinu en hún er fyrirfram talin líkleg til að komast alla leið í úrslit.

Hægt er að fylgjast með framvindu mótsins með því að smella hér.

Skrifađ 29. nóvember, 2007
ALS